Skoðun

Ung börn geta ekki beðið

Sæunn Kjartansdóttir skrifar
Það er með hálfum huga sem ég rita þessa grein. Daglega berast fréttir af alvarlegu ástandi Landspítalans og fjárskorti í velferðarkerfinu, hvernig á ég að gera mér vonir um að Miðstöð foreldra og barna fái náð fyrir augum ráðamanna? Fæstir hafa svo mikið sem heyrt á hana minnst. Þó er öllu verra að það er alls óvíst að þeir sem deila út fjármunum okkar átti sig á mikilvægi fyrsta æviársins. Halda þeir kannski að lítil börn séu hörð af sér og fljót að gleyma? Standa þeir í þeirri trú að það sem gleymist skipti ekki máli? Vonandi ekki því að þetta eru ranghugmyndir sem eru hættulegar ungum börnum.

Á meðan orka heilbrigðisráðherra fer í að slökkva elda er hætt við að tækifæri til að fyrirbyggja alvarlegan vanda fari forgörðum. Hægt er að spara verulega fjármuni með því að grípa snemma inn í hjá fjölskyldum með ung börn, reyndar ekki á þessu kjörtímabili, heldur þarf að horfa til framtíðar. Þetta er ekki eingöngu skoðun meðferðaraðila heldur hefur bandarískur Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði sýnt fram á að þeir fjármunir skila langmestu til baka til samfélagsins sem varið er í að styðja við börn fyrstu 5 ár ævinnar. Það er vegna þess að bætt heilsa og aukin félagsleg færni dregur úr þörf fyrir kostnaðarsöm úrræði síðar meir í félags-, mennta- og heilbrigðiskerfinu.

Í Bretlandi hafa þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum áttað sig á þessu en nýlega gerðu þeir með sér þverpólitískan sáttmála sem kallast The 1001 Critical Days. Í honum er kveðið á um hvaða þjónustu fjölskyldur ungra barna þurfa og eiga rétt á, þrátt fyrir vægðarlausan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Sáttmálinn tryggir að hagsmunir yngstu barnanna eru hafnir yfir dægurþras stjórnmálamanna og að fjárveitingar til faglegrar þjónustu við ung börn eru ekki háðar því hverjir sitja við stjórnvölinn hverju sinni.

Viðkvæmustu einstaklingarnir

Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar ótalmargar rannsóknir sem sýna að fyrstu þúsund dagarnir, frá getnaði til tveggja ára aldurs, hafi meiri áhrif á framtíðarheilbrigði einstaklingsins en nokkurt annað æviskeið. Á þessu tímabili er heili barnsins í mótun en þroski hans er mjög háður daglegri umönnun barnsins. Rétt er að minna á að ung börn eru viðkvæmustu og varnarlausustu einstaklingar samfélagsins. Þau eru jafnframt sá hópur sem gerir mestar kröfur til foreldra sinna því þau þurfa næma umönnun allan sólarhringinn, án þess að geta tjáð þarfir sínar öðru vísi en með gráti. Þessi staða setur þau í margfalt meiri áhættu en eldri börn.

Annar alvarlegur áhættuþáttur er vanlíðan foreldra sem dregur úr næmi þeirra á barn sitt og truflar örugga tengslamyndun. Það er því ekki eingöngu nauðsynlegt að grípa tímanlega inn í heldur felst heilbrigð skynsemi í að nýta tækifærið til að hafa varanleg áhrif á barn og foreldra þess. Auk þess er það siðferðileg skylda samfélagsins að vera vakandi fyrir líðan ungra barna og bregðast við með ábyrgum hætti þegar þau fá ekki það atlæti sem þau þarfnast.

Vandi ungra barna og foreldra sem glíma við vanlíðan er brýnn. Miðstöð foreldra og barna er eina meðferðarúrræðið sem sinnir þeim sem þurfa sérhæfðari hjálp en heilsugæslan veitir en eiga þó ekki erindi á geðdeild. Vissulega kostar að veita foreldrum og börnum þeirra meðferð en ég fullyrði að það sé mun kostnaðarsamara fyrir samfélagið að gera það ekki.




Skoðun

Sjá meira


×