Handbolti

Þetta er einstakur klúbbur á allan hátt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skorar hér eitt af átta mörkum sínum gegn Granollers í spænska Ofurbikarnum.
Guðjón Valur Sigurðsson skorar hér eitt af átta mörkum sínum gegn Granollers í spænska Ofurbikarnum. mynd/barcelona
„Þetta er búinn að vera flottur tími síðan ég kom. Þetta er stórt og mikið félag. Allt mjög fagmannlegt og ég hef ekki yfir neinu að kvarta,“ sagði landsliðsfyrirliðinn og einn besti vinstri hornamaður heims, Guðjón Valur Sigurðsson.

Hann yfirgaf herbúðir þýska meistaraliðsins Kiel í sumar enda stóð honum til boða að ganga í raðir spænska stórliðsins Barcelona. Guðjón fór á kostum með liðinu í leiknum um Ofurbikarinn þar sem hann skoraði átta mörk. Hann endurtók svo leikinn í fyrsta leik Barcelona í deildinni.

„Það var rosalegur hiti í Höllinni í þessum Ofurbikarleik og aðeins vandræði á okkar leik. Þegar maður er farinn að svitna í gegnum hendurnar þá er erfitt að halda á boltanum og spila handbolta. Við höfðum þetta þó að lokum og það var gaman að spila með þessum köllum,“ segir Guðjón en á meðal annarra stjarna í liðinu má nefna menn eins og Nikola Karabatic, Kiril Lazarov og Siarhei Rutenka.

„Kiel var skemmtilegt félag og gaman að hafa spilað með því frábæra liði. Það var gaman að kveðja það með ævintýralegum sigri í deildinni. Að koma svo í þetta lið sem er engu síðra er magnað. Ég er mjög glaður með þetta allt saman.“

Gaman að læra spænska stílinn

Guðjón hefur verið undir stjórn margra frábærra þjálfara en hann er í fyrsta skipti núna hjá spænskum þjálfara sem er Xavi Pascual.

„Við æfum mikið og á mjög háu tempói. Þetta eru öðruvísi æfingar en hjá Alla í Kiel en alls ekkert auðveldari. Þetta er önnur aðferð að sama marki. Ég hef verið með Rússa, Króata, Svía, Þjóðverja og Íslending sem þjálfara og nú Spánverja. Það er gaman að komast í enn einn stílinn. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og gaman að sjá hvernig Spánverjinn hugsar.“

„Mér hefur gengið mjög vel að aðlagast og allir mjög almennilegir og liðlegir við mig. Ég er auðvitað mállaus í augnablikinu enda ekki búinn að læra málið. Ég þoli ekki að vera ósjálfbjarga. Það fer í taugarnar á mér að vera upp á aðra kominn. Ég hef aldrei kunnað við það. Ég hef ekki alveg náð að læra nógu mikið í málinu enda mikið að gera en það fer að róast fljótlega og þá kemst ég á fullt.“

Lengi í sigti Barcelona

Hornamaðurinn frábæri viðurkennir að það hafi lengi blundað í sér að spila handbolta á Spáni.

„Fyrsta atvinnumannstilboðið sem ég fékk kom frá Spáni en það var árið áður en ég fór til Tusem Essen. KA-menn voru ekki viljugir til þess að hleypa mér út þá. Mig hefur alltaf langað til Spánar og ég hef fengið nokkur tilboð í gegnum tíðina. Essen vildi ekki hleypa mér til Spánar árið 2003 og 2010 var ég með spennandi tilboð líka frá Spáni. Ég var því glaður þegar þetta gekk upp enda alltaf langað að búa á Spáni, læra tungumálið og spila í deildinni. Þetta er líka einstakur klúbbur á allan hátt,“ segir Guðjón og viðurkennir að Barcelona hafi áður verið á eftir honum en vill þó ekki gefa upp hvenær það hafi verið.

Guðjón Valur segir að tilfinningin að klæðast Barcelona-búningnum og spila með liðinu hafi verið góð þó svo að hann hafi ekkert verið að velta sér sérstaklega upp úr því.

„Yfirleitt klárar maður upphitun, fer svo í búning, gefur nokkrar fimmur og fer svo út á völl. Ég var lítið að kíkja á mig í speglinum eða spá í að ég væri að spila með Barcelona. Það má ekki missa sig yfir því. Þetta er enn þá handbolti og það þarf að vinna fyrir sínum árangri.“

Barcelona-liðið var með ótrúlega yfirburði á Spáni í fyrra þar sem það vann alla sína leiki. Það tapaði síðan í vítakastkeppni í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Það eru eðlilega gerðar miklar kröfur til liðsins en það truflar Guðjón Val ekki neitt.

„Það er ekkert öðruvísi hér en hjá Kiel að það á að vinna alla leiki. Þeir vildu fá mann sem gæti borið treyjuna, hefði reynslu og væri góður undir álagi. Það er ágætt að þeir hafa trú á manni en ég hef alltaf viljað standa mig í vinnunni, sama hvernig pressa er á mér. Ég legg mikinn metnað í það sem ég geri og er mjög stoltur af því sem ég geri. Ég vil ná árangri sama hvort það er utanaðkomandi pressa eða ekki.“


Tengdar fréttir

Guðjón Valur með átta mörk í stórsigri

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í liði Barcelona í 42-25 sigri liðsins á Aragón í kvöld í fyrstu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×