Skoðun

Frjálshyggja og flugeldar

Guðmundur Edgarsson skrifar
Tvennt kemur í huga okkar frjálshyggjumanna (e. libertarians) varðandi flugelda um áramót.

Laumufarþegavandinn

Annað er hinn svokallaði laumufarþegavandi (e. free-rider problem), þ.e. þegar fleiri geta notið tiltekinnar þjónustu eða upplifunar án tillits til þess hvort menn greiða fyrir eða ekki. Laumufarþegavandinn hefur svo verið notaður óspart af stjórnmálamönnum til að réttlæta hvers kyns skattheimtu.

En hvað með alla flugeldana um áramót? Svo stórkostleg er sú sjón þegar þeim er öllum skotið upp að vart fyrirfinnst sá einstaklingur sem vildi missa af þeirri upplifun. Samt kaupa ekki allir flugelda. Á ríkið þá ekki að beita sér fyrir því að öllum sé gert að kaupa a.m.k. einn flugeldapakka um hver áramót, annaðhvort með beinum hætti eða óbeint í gegnum skattkerfið? Er ekki alveg ómögulegt að fleiri sjái flugeldana springa með tilþrifum á himninum en þeir sem keyptu flugelda?

Máttur hjálparsamtaka

Hitt hugðarefnið er máttur frjálsra góðgerðarfélaga á borð við hjálparsveitirnar. Megnið af þeirra tekjum kemur í gegnum frjáls framlög og sjálfboðaliðavinnu. Mest munar þó um flugeldasöluna um áramót. Fólk kaupir sjálfviljugt flugelda og styrkir í leiðinni hið öfluga starf sem hjálparsveitirnar vinna. Ríkisstyrkir eru hverfandi litlir og það þrátt fyrir að í flestum öðrum ríkjum eru hjálparsveitir reknar af opinberum aðilum. Og viti menn: íslenskar björgunarsveitir standast hinum erlendu fullan snúning. Er ekki eitthvað bogið við þetta?

Á móti hjálparsveitum?

Ef útlendingur yrði spurður hvort landar hans hafi velt fyrir sér að lækka skatta í því skyni að leggja niður hjálparsveitir á vegum ríkisins og skapa þannig meira svigrúm fyrir frjáls félagasamtök að sinna björgunarstarfi, er næsta víst að viðbrögð hans yrðu eftirfarandi:

Ertu á móti björgunarsveitum? Ertu galinn?




Skoðun

Sjá meira


×