Skoðun

Bjartir og skemmtilegir garðar og útivistarsvæði í Garðabæ

Auður Hallgrímsdóttir skrifar
Á hverju ári velur Umhverfisnefnd Garðabæjar fallegasta garðinn við einkaheimili, fallegustu götuna og snyrtilegasta athafnasvæði fyrirtækja. Bærinn hrósar því sem íbúar gera vel og verðlaunar með fallegu skjali til minningar um gott framlag til fegrunar bæjarins.

Bærinn sjálfur á marga fallega „garða“ og leiksvæði í nánast öllum hverfum bæjarins. En Garðabær hefur því miður ekki viðhaldið öllum sínum görðum af sömu natni og umhyggju og íbúarnir. Gaman væri ef íbúar væru virkjaðir árlega til að velja sinn uppáhaldsgarð eða leiksvæði. Þá væri komið samtal milli íbúa og yfirvalda.

Í endurnýjun lífdaga

Garðabær leigir íbúum smá skika undir matjurtagarða í gömlu skólagörðunum. Garðarnir eru vel nýttir og njóta mikilla vinsælda meðal íbúa bæjarins. Bragalundur í Silfurtúni bíður óþreyjufullur eftir endurnýjun lífdaga.

Tækifærin

Gaman væri að eiga fallega andatjörn við Arnarnesvoginn og bæjargarð með útisviði, grasbölum og gróðri við hraunjaðarinn fyrir neðan Ásgarðssvæðið. Grasa- og fræðslugarð á græna svæðinu fyrir ofan Silfurtúnið. Fjölskyldu- og húsdýragarð í Heiðmörk, vetrargarð í Vífilsstaðahlíð með sleðabrekku og skautasvelli í Grunnuvatnadal. Hafnargarð fyrir skútur, kajaka og kanóa í Arnanesvoginum. Alls konar skemmtilega stoppustaði alls staðar. Deiliskipulag Heiðmerkur og strandlengjunnar frá Balatjörn að Kópavogsleirum á að vinna í samvinnu við íbúa bæjarins, „það samtal er mjög mikilvægt“.

Íbúalýðræðið

Garðabær þarf aðkomu fagfólks við framtíðarhönnun á skipan og ásjón bæjarins í samvinnu við íbúana. Það er ekki nóg að hafa falleg hringtorg og umferðareyjar með blómum og trjám fyrir augað þegar keyrt er framhjá. Við viljum fallega og fjölbreytta garða og útivistarsvæði. Garðabær á að taka verkefnið Betri hverfi í Reykjavík sér til fyrirmyndar varðandi úthlutun árlegs fjármagns til umhverfismála. Að hverfin sjálf og íbúar hverfanna forgangsraði verkefnum á hverjum stað í nærumhverfi sínu. Svoleiðis samtal er virkt íbúalýðræði.

Björt framtíð með fjölbreyttum og skemmtilegum útivistasvæðum fyrir alla.




Skoðun

Sjá meira


×