Skoðun

Takk!

Agnes M. Sigurðardóttir skrifar
Þær voru glaðar í viðtali í sjónvarpinu sóknarbörnin mín fyrrverandi, fjórar ungar konur í Bolungarvík.

Þær eru viljugar til að gefa kost á sér til sveitarstjórnarstarfa í bænum næstu fjögur árin. Þær vilja láta gott af sér leiða og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd sem þær telja að bæti mannlíf og auki velsæld. Þannig er mörgum farið þessa dagana. Þau eru mörg sem hafa vilja til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu og hafa ákveðna framtíðarsýn fyrir byggðarlög sín.

Það er stutt til sveitarstjórnarkosninga hér á landi og er frestur til að skila framboðslistum inn til yfirkjörstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi liðinn.

Það er gott og þakkarvert að fólk vill gefa kost á sér til samfélagslegra verkefna. Umræðan er oft óvægin og athugasemdirnar særandi og lítt uppbyggilegar.

Dómharka er þekkt hjá mannkyninu og það er auðvelt að falla í þá gryfju að dæma þegar enga ábyrgð þarf að axla. Það er umhugsunarvert hvers vegna gullna reglan er ekki ofarlega í huga og oftar höfð í heiðri í mannlegum samskiptum sem og í netheimum. „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“

Hún hvetur okkur til samskipta og samtals og í framhaldi af því til uppbyggilegra framkvæmda. Hún hvetur okkur til þroska þannig að við séum fær um að setja okkur í annarra spor. Þið sem bjóðið ykkur fram hafið sýnt djörfung og kjark. Megi ykkur auðnast að halda þeim eiginleikum í störfum fyrir sveitarfélög ykkar.

Ég óska frambjóðendum öllum til hamingju með þá ákvörðun að bjóða sig fram til að vinna sveitarfélagi sínu heilt og þeim sem brautargengi fá velfarnaðar á þeim vegi. Megi kjósendur nýta sér réttinn til áhrifa með því að mæta á kjörstað. Hvert atkvæði skiptir máli og hefur áhrif á niðurstöðu kosninganna.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×