Skoðun

Hjólað í vinnuna 2014, vinnustaðakeppni ÍSÍ

Hafsteinn Pálsson skrifar
Það er lífsstíll margra að hjóla í vinnuna. Fjöldinn sem það gerir fer vaxandi ár frá ári. Að hjóla er kjörin leið til að hreyfa sig sér til heilsubótar og til að auka vellíðan.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hvetur almenning til reglubundinnar hreyfingar með því að bjóða upp á heilsu- og hvatningarverkefni. Hjólað í vinnuna er eitt af þessum verkefnum og verður það ræst í tólfta sinn miðvikudaginn 7. maí og mun standa til 27. maí. Verkefnið felst í því að allir landsmenn eru hvattir til þess að setja saman lið á sínum vinnustað og taka þátt í þessari skemmtilegu keppni. Þetta er kjörin leið til þess að hreyfa sig sér til ánægju og heilsubótar og skrá það inn á www.hjoladivinnuna.is.

Þátttakan hefur farið stigvaxandi. Keppt er um hlutfall daga og er það reiknað út frá heildarfjölda starfsmanna sem vinna á vinnustaðnum, þannig að líkurnar á árangri í keppninni eru betri ef velflestir starfsmenn vinnustaðarins taka þátt. Hægt er að skrá allan vinnustaðinn í eitt lið eða búa til nokkur lið og hafa keppni innan vinnustaðarinns. Einnig er keppt um fjölda kílómetra en lið eru skráð sérstaklega í þá keppni.

Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta og um leið að bjóða upp á skemmtilega keppni til að hvetja til aukinnar hreyfingar landsmanna og efla starfsandann. Samkvæmt ráleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu er fullorðnum einstakling ráðlagt að hreyfa sig í minnst 30 mínútur á dag. Einfalt er að uppfylla þær ráðleggingar með því að nýta virkan ferðamáta til og frá vinnu.

Á heimasíðu verkefnisins má finna ýmsan fróðleik um hjólreiðar og um þá viðburði og leiki sem eru í gangi meðan á átakinu stendur.

Það er von okkar hjá ÍSÍ að gleðin verði í fyrirrúmi á vinnustöðum landsins þessar þrjár vikur í maí meðan á átakinu stendur. Góð stemning náist og áhugi fólks á því að hjóla til og frá vinnu aukist enn frekar og að enn fleiri haldi áfram að hjóla eftir að átakinu lýkur.

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á www.hjoladivinnuna.is eða með því að senda tölvupóst á hjoladivinnuna@isi.is.

Landsmenn eru hvattir til að taka þátt í Hjólað í vinnuna. Það er vor í lofti!






Skoðun

Sjá meira


×