Skoðun

Lýsing byggir á lögum II

Þór Jónsson skrifar
Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður flytur mestmegnis endurtekið efni í andsvari sínu við grein minni í Fréttablaðinu 15. apríl sl. um Lýsingu hf. og dóma sem félagið byggir síðari endurreikning samninga sinna á. Kosturinn við það er að þá getur þetta svar mitt verið stutt, enda óþarfi að svara rangfærslum sem áður hefur verið vísað til föðurhúsanna eða upphrópunum sem dæma sig sjálfar.

Einar Hugi lætur eins og hann þekki ekki dóminn sem útreikningsaðferð Lýsingar byggist á og er kenndur við Plastiðjuna. Heldur hann því fram að endurreikningur félagsins sé andstæður dómafordæmum en flutti þó sjálfur málið í Hæstarétti.

Hann nefnir heldur ekki einu orði athugasemdir mínar við hvatningu hans árið 2011 til viðskiptavina Lýsingar o.fl. um að hætta að greiða af fjármögnunarleigusamningum og fullyrðingar um að þeir stæðust ekki lög. Hæstiréttur hefur þvert á móti staðfest að fjármögnunarleigusamningar Lýsingar eru lögmætir. Þykist ég vita að þeim sem fóru að ráðum lögmannsins og skulda nú dráttarvexti vegna vanskila leikur forvitni á að vita hvort orðum hans fylgi ekki einhver ábyrgð.

Lýsing hefur lagt sig fram um að eyða ætlaðri réttaróvissu um samninga félagsins og endurreikna og leiðrétta samninga þegar svo ber undir með skilvirkum hætti. Dómsmál vegna slíkra samninga hafa reynst ýmsum lögfræðingum, sem hafa sérhæft sig í gengislánum, drjúg tekjulind. Endurteknar staðhæfingar lögmannsins um hver sé launagreiðandi minn, sem má þó vera augljóst, verða hjákátlegar í ljósi þeirra hagsmuna.




Skoðun

Sjá meira


×