Skoðun

Framtíð íslensks sjávarútvegs

Kolbeinn Árnason skrifar
Enn á ný tröllríður umræða um veiðigjöld fjölmiðlum. Því miður virðist hún nú rétt eins og undanfarin ár aðallega snúast um hvort gjöldin séu of há eða lág. Undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar á að leggja sitt til samfélagsins en það skiptir máli að vandað sé til verka til að ekki sé grafið undan því sem vel hefur verið gert. Sú tillaga sem sett hefur verið fram um veiðigjöld næsta árs virðist ekki byggjast á nokkurri greiningu á því hvað sjávarútvegurinn þoli í gjaldtöku, hvaða áhrif aðferðin mun hafa á fyrirtæki og byggðarlög eða sýn á það hvernig ríkisstjórnin vill að þessi grundvallaratvinnuvegur þróist.

Í stað þess að stökkva út í drullupollinn og tala um fjárhæð þessa gjalds vildi ég í þessum stutta pistli reyna að hefja þá umræðu sem þarf að fara fram um þessa gjaldtöku sem hluta af heildstæðu kerfi sem búa þarf sjávarútveginum til framtíðar þannig að við getum áfram verið stolt af því að á Íslandi sé rekinn sjávarútvegur sem sé í fremstu röð í heiminum. Umræðu um það hvernig við viljum sjá atvinnugreinina þróast til framtíðar þannig að hún geti áfram skilað sem mestu til samfélagsins alls í formi gjaldeyristekna, launagreiðslna, skatttekna, þróunar þjónustugreina eins og flutninga og fjármögnunar, menntunar og nýsköpunar, þar sem umhverfismál eru í forgrunni.

Sjávarútvegurinn er að þróast á miklum hraða í að verða þekkingargrein þar sem forskot og forusta á sviði tækni og markaðssetningar skiptir miklu máli. Þessi þróun skapar tækifæri til að auka enn frekar þau verðmæti sem sjávarútvegurinn getur skilað beint og óbeint. Í þessu eru þó einnig áskoranir því við erum ekki ein um að eygja þessa möguleika heldur gera okkar helstu samkeppnislönd það líka. Við sjáum það nú á sífellt harðnandi samkeppni við til að mynda Noreg og Rússland á mörkuðum sem við höfum hingað til verið í forustu á.

Ég hvet til þess að lagt verði í vinnu við greiningu á þessum tækifærum og áskorunum svo mögulegt sé að ræða af yfirvegun hvert við viljum að sjávarútvegur á Íslandi stefni, hvort ekki sé samstaða um að við eigum að efla hann þannig að hann verði áfram í fremstu röð og færi íslensku samfélagi þar með auknar tekjur. Sem hluta af þessari umræðu er eðlilegt að fjárhæð veiðigjalda og sú aðferðafræði sem notuð er við álagningu þeirra verði rædd.




Skoðun

Sjá meira


×