Skoðun

Menntun og tækifæri fyrir alla – 1. maí 2014

Barátta verkalýðshreyfingarinnar hefur frá upphafi byggst á sýn um samfélag jafnréttis og jafnra tækifæra þar sem allir hafa möguleika til menntunar og tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði. Möguleikar ungs fólks til að sækja sér menntun við hæfi er mikilvæg forsenda virkrar þátttöku á vinnumarkaði og starfstækifæra í framtíðinni. Menntakerfið svarar í dag ekki kröfum um tækifæri til náms sem svara þörfum einstaklinga og atvinnulífs. Þá eru sterkar vísbendingar um að vaxandi hópur foreldra hafi ekki efni á að fjármagna framhaldsskólanám barna sinna vegna kostnaðar. Afleiðingin er sú að brottfall ungmenna úr framhaldsskólum á Íslandi er óásættanlegt og mun meira en gerist meðal nágrannaþjóðanna. Um leið dregur verulega úr möguleikum þeirra á vinnumarkaði sem hverfa úr námi. Atvinna við hæfi og þátttaka á vinnumarkaði er sjálfsögð krafa og lykillinn að virkri þátttöku í samfélaginu. Virkni og almenn atvinnuþátttaka er jafnframt mikilvæg forsenda velferðarsamfélagsins. Þúsundir einstaklinga eru atvinnulausar. Þetta á ekki síst við um mikinn fjölda ungs fólks sem aldrei hefur náð að festa sig í sessi á vinnumarkaði. Í stefnumörkuninni Ísland 2020 hafa stjórnvöld sett sem markmið að hlutfall Íslendinga á aldrinum 25-64 ára sem ekki hafa lokið formlegri framhaldsmenntun lækki úr 30% í 10% á næstu árum. Samtök launafólks hafa lagt mikla áherslu á að viðurkennt verði mikilvægi þess að fólk sem komið er út á vinnumarkaðinn hafi tækifæri til að auka þekkingu sína og færni. Annað tækifæri til náms fyrir fólk með litla formlega viðurkennda menntun er mikilvægt, ásamt því að svara þörf launafólks og fyrirtækja fyrir eftir- og endurmenntun og nýsköpun til að mæta breyttum kröfum atvinnulífsins á hverjum tíma. Öflug og framsækin menntastefna er mikilvægur drifkraftur efnahagslífsins og samfélagsins alls. Réttur allra til menntunar og starfa við hæfi er eitt stærsta jafnréttismál samtímans. Um leið er aukin menntun og tækifæri til virkrar atvinnuþátttöku mikilvæg forsenda árangurs í að draga úr ójöfnuði í samfélaginu.



Skoðun

Sjá meira


×