Skoðun

Til hamingju Seltjarnarnes

Margrét Lind Ólafsdóttir skrifar
Bærinn okkar Seltjarnarnes er fertugur um þessar mundir. Margt má segja og rifja upp af minna tilefni. Hver hefur vegferðin verið? Hvað einkennir okkur og hvert stefnum við.

Náttúran hefur gefið okkur glæsta umgjörð, haf, land fjölbreytt lífríki og fagurt heildstætt landslag til að njóta. Tengsl við sögu lands og höfuðstaðar eru mikil og oft áþreifanleg í umhverfinu og samofin því. Við hljótum að virða og meta hátt sögu Ness og Nesstofu. Það lyftir samfélaginu og styrkir alla hugsun um það. Við erum um 4.400 íbúarnir, en eigum lítið land til umráða. Við eigum að mörgu leyti gott samfélag og margt hefur tekist vel að leysa, en áfram er að mörgu að hyggja til að bæta og byggja það upp.

Til að meta stöðu okkar og framtíðarsýn þarf einlægni og hreinskiptið vinnulag. Við getum kallað það lýðræði með upplýsta umræðu sem grunnstef og ýmsar leiðir til að framkvæma. Þetta verðum við sjálf að tryggja; skref hafa verið stigin, en þau þurfa að vera fleiri og eitt leiðir af öðru. Þannig skapast víddir í samskiptum og menningu sem við þörfnumst. Samfélag þróast og mótast og í okkar dæmi er það heilt samfélag en ekki hverfi í stórum bæ.

Framtíðarsýnin beinist að traustu og hreinskiptnu lýðræði og vel grunduðu og þróuðu samstarfi. En við stöldrum við áhrifaþætti til framtíðar og bendum á að þjónusta muni miklu ráða um val fólks til búsetu hér; þjónustan við unga, við unglinga og fjölskyldur og við aldraða. En þetta gerist við aðstæður þegar verð húsnæðis er hliðstætt í næstu byggðahverfum Reykjavíkur og hér. En við skulum vinna þetta saman, faglega og í lýðræðislegum samskiptum.

Enn og aftur bestu hamingjuóskir, Seltirningar allir.

Samfylking Seltirninga




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×