Skoðun

Brennivín og hjálpartæki

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Um síðustu áramót voru gerðar breytingar á gjaldskrám sjúkratrygginga sem hafa þær afleiðingar að þeir sem þurfa á hjálpartækjum að halda greiða meira fyrir þau en áður. Þessi breyting skerðir augljóslega ráðstöfunartekjur þeirra sem þurfa að nýta sér hjálpartæki, svo sem öndunarvélar, bleyjur, öryggiskallkerfi, gervibrjóst, hjálpartæki í bifreið eða í baði, stafi eða hækjur. Breytingin á að skila ríkissjóði 150 milljónum króna.

Til stendur að lækka áfengis- og tóbaksgjald um 1% samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra sem nú er til umræðu í þinginu, sem þýðir tekjulækkun hjá ríkissjóði sem nemur um 190 milljónum króna.

Lækkun á tóbaki og áfengi er sögð gerð vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga í desember á síðasta ári. Þeir sem nýta sér þær vörur munu væntanlega verða lítið varir við 1% lækkun á gjaldi sem er aðeins hluti af útsöluverðinu og spyrja má hvort öruggt sé að lækkunin leiði til lægra verðlags. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að ef þessum lækkunum ásamt samsvarandi lækkun á bensíngjaldi og orkuskatti verði að öllu leyti velt út í verðlag, þá gæti vísitala neysluverðs lauslega metið lækkað samtals um 0,08%.

Aukinn ójöfnuður

Þeir einstaklingar sem nýta sér hjálpartæki þurfa flestir nauðsynlega á þeim að halda til að bæta skert lífsgæði. Svo er aldeilis ekki farið hjá þeim sem nota tóbak eða áfengi. Þvert á móti getur aukin neysla valdið heilbrigðisvanda með miklum kostnaði fyrir sjúklinga og samfélagið.

Til viðbótar við 150 milljóna króna hækkun á kostnað þeirra sem þurfa að nota hjálpartæki, þá er gjaldskrá fyrir sjúkra-, tal- og iðjuþjálfun einnig hækkuð verulega og á að skila samtals 100 milljónum króna til að bæta hag ríkissjóðs. Hækkanirnar eru langt umfram verðlagsþróun.

Ég vil minna á í þessu sambandi að veiðigjöld voru lækkuð um 6.400 milljónir króna í ár, gjöld á atvinnugrein sem hefur aldrei skilað eins miklum arði til þeirra sem hafa sérleyfi til nýtingar á auðlind í eigu þjóðarinnar. Þá var fyrirhuguð hækkun á neysluskatti sem erlendir ferðamenn greiða að mestu einnig afþökkuð en áætlað var að hún skilaði um 1.500 milljónum króna til ríkissjóðs í ár.

Eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar er hækkun gjalda á þá sem veikir standa fyrir og þurfa á stuðningi hjálpartækja eða þjálfun að halda. Á sama tíma hafna stjórnvöld eðlilegu gjaldi af auðlindum þjóðarinnar, sjávarafla og náttúruperlum. Það má vera öllum ljóst að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar leiðir til aukins ójafnaðar og óréttlætis. Er það ásættanlegt? Hvað finnst þér, lesandi góður?




Skoðun

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×