Skoðun

Meðvitað öryggi í stað breikkunar Hvalfjarðarganga

Birna Hreiðarsdóttir skrifar
Hvalfjarðargöngin voru vel heppnuð framkvæmd og mikil samgöngubót á sínum tíma. Spölur, fyrirtækið sem að þessu stóð, á hrós skilið fyrir að gangast í verkefnið og skila því með glæsibrag í samvinnu við stjórnvöld sem greiddu hluta kostnaðarins. Þegar göngin verða að fullu greidd fær ríkið þau til eignar, þó ekki síðar en árið 2018.

Að undanförnu hafa forsvarsmenn Spalar sett fram það sjónarmið í fjölmiðlum að vegna mikillar aukningar á umferð um göngin sé nauðsynlegt að tvöfalda þau til að uppfylla öryggiskröfur. Framkvæmdin muni kosta um 9 milljarða króna, sem hefði í för með sér framlengingu á innheimtu veggjalda næstu áratugina. Jafnframt hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna Spalar að málið „sé á herðum stjórnvalda“, sem þýðir að samþykki og fjármagn þurfi að koma til frá ríkinu eigi framkvæmdin að verða að veruleika. Mikilvægt er að stjórnvöld marki skýra stefnu í þessu máli, boltinn er í raun hjá þeim.

Viðmið um tvöföldun vegganga

Samkvæmt tölum frá Speli hefur dagleg umferð undanfarin 5 ár um göngin verið að meðaltali um 2.600 ökutæki á hvora akrein. Nokkuð dró úr umferð á árunum 2009-12 en jókst aftur árið 2013. Í ljósi þess að mikil aukning hefur orðið á fjölda ferðamanna til landsins gefa þessar tölur ekki til kynna að vænta megi umtalsverðrar aukningar á umferð um göngin.

Í viðauka við reglugerð um öryggiskröfur í jarðgöngum (nr. 992/2007) kemur fram það mat, sem byggt er á samevrópskum viðmiðum, að reisa beri tvö aðskilin gangarör (væntanlega með tveimur akreinum í hvora átt) ef áætlanir næstu 15 árin sýna að dagsumferðin muni fara yfir 10.000 ökutæki í hvora átt. Þetta er um fjórföld sú umferð sem fer um Hvalfjarðargöng nú. Miðað við framreiknaðar mannfjölda- og ferðamannaspár er útilokað að umferðin um Hvalfjarðargöng aukist svo mikið næstu 15-30 árin.

Hörmuleg slys hafa orðið á undanförnum árum í veggöngum víðs vegar um heim sem hefur leitt til þess að öryggiskröfur hafa verið hertar sem hefur leitt til fækkunar alvarlegra slysa.

Árið 1999 létust 39 manns í hræðilegu slysi í Mont Blanc-veggöngunum milli Frakklands og Ítalíu. Göngin voru endurbyggð frá grunni og eru nú talin ein þau öruggustu í heimi. Þau eru rúmlega tvöfalt lengri en Hvalfjarðargöng en engu að síður aðeins ein akrein í hvora átt. Þar gildir bæði lágmarks- og hámarkshraði (50–70 km/klst.) og áskilin er lágmarksfjarlægð milli ökutækja við akstur í gegnum göngin.

Í Frakklandi og á Ítalíu búa um 130 milljónir manna. Ef göng með einni akrein í hvora átt nægja þeim, er virkilega nauðsynlegt að byggja tvíbreið göng hér á landi? Í Noregi eru hátt í 900 veggöng, flest einbreið.

Til framtíðar

Í stað tvöföldunar Hvalfjarðarganga hlýtur meginverkefnið á næstunni að vera aukið öryggið, t.d. þarf að skoða byggingu öryggisganga meðfram göngunum og útgönguleiðir inn í þau á vissu millibili. Þannig geti vegfarendur yfirgefið aðalgöngin ef slys ber að höndum. Einnig virðist loftgæðum vera áfátt í Hvalfjarðargöngum.

Það er umhugsunarefni að gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk geti ekki notfært sér göngin nú. Vera má að lausn sé finnanleg fyrir þessa vegfarendahópa.

Brýnt er að endurskoða reglur um flutning á hættulegum farmi um göngin, auka eftirlit og hækka sektir við brotum, hvort heldur af hálfu ökumanns eða rekstraraðila.

Það er vart til þjóðhagslega betri fjárfesting en skynsamlegar framkvæmdir í vegamálum. Bygging hálendisvegar og Sundabrautar er tvímælalaust dæmi um slíkar framkvæmdir. Mikilvægt er að raunhæft mat á umferðarmagni sé lagt til grundvallar við undirbúning framkvæmda.

Vonandi geta stjórnvöld, sveitarfélög og fjárfestar, eins og lífeyrissjóðirnir, borið gæfu til þess að beina kröftum sínum að slíkum verkefnum og efla þannig innviði samgöngukerfisins til framtíðar.




Skoðun

Sjá meira


×