Skoðun

Að vera óupplýst

Óskar H. Valtýsson skrifar
Náttúruvitund og náttúruvernd hefur tekið stórstígum framförum á undanförnum áratugum.  Umhverfismál eru inn í dag – ofarlega eða jafnvel efst í umræðunni.  Þrátt fyrir það veita því fáir athygli hve miklum skaða maðurinn veldur í náttúru og lífríki með athöfnum sínum í dýraeldi.  Það er þegjandi samkomulag um að þegja um slíkt, þegjandi samkomulag um að loka augum fyrir því sem fram fer í eldisbúum landsmanna, þegjandi samkomulag um að vera óupplýst.

Margir eru illa að sér um náttúru og dýralíf, eru óupplýstir og ólesnir, sjá ekki og heyra ekki, er einfaldlega sama - láta sér örlög náttúru og dýra í léttu rúmi liggja.  Svo eru aðrir sem eru upplýstir en vilja ekki vita, vilja ekki spilla matarlystinni.  Heitfengir náttúruverndarsinnar láta sig dýravelferðarmál jafnvel engu skipta, fyrirhafnarminna að bera umhyggju fyrir hinni dauðu náttúru en þeirri lifandi, ekki líklegt að sá sem er áhugasamur um vernd sanda og mela þurfi að fórna nokkru af „lífsins lystisemdum“ vegna hugsjóna sinna, þurfi að breyta neysluvenjum sínum, þurfi að huga að því skaðræði sem hann veldur í dýraríkinu, þurfi að kljást við nagandi samviskubit vegna umhverfishegðunar sinnar.  Slíkir eru viljandi óupplýstir um aðstæður eldisdýra.

En baráttan gegn óásættanlegri meðferð dýra í eldisiðnaðinum snýst ekki eingöngu um dýravelferð, umhverfismál spila þar stórt hlutverk.  Veit hinn óupplýsti að það þarf tíu kaloríur til að framleiða hverja kaloríu í dýraafurðum?  Veit hinn óupplýsti að 18% þeirra loftegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum verða til við framleiðslu dýraafurða sem er meira en öll samgöngu- og flutningskerfi spúa frá sér?  Og þá er allt með talið, bílar, lestar, skip, flugvélar, vinnuvélar, já bara öll samgöngu- og flutningskerfi leggja einungis til 13% þeirra mengandi lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum á móti þeim 18% sem framleiðsla dýraafurða gerir.  Samt er lögð megin áhersla á að draga úr mengandi útblæstri í samgöngum.

Með tilliti til skaðlegra umhverfisáhrifa eldisiðnaðarins, þ.e. mengunar, gríðarlegrar vatnsnotkunar og umfangs ræktarlands, sem nú þegar er takmarkað, er líklegt að innan næstu 100 ára verði allt nauðeldi dýra (e. Intensive Factory Farming) bannað í okkar heimshluta og að innan 150 ára verði neysla dýraafurða að mestu aflögð af siðferðisástæðum.  Nú þegar er til tækni sem gerir kleift að framleiða hluta þeirra afurða sem fást með dýraeldi og innan næstu 50 ára er líklegt að hægt verði að framleiða allar slíkar afurðir án milligöngu dýranna blessaðra hvort sem það er í nauðeldi eða hefðbundnum landbúnaði.  Þar fyrir utan mun aukin fræðsla um skaðsemi nauðeldis og illa meðferð dýra valda því að neytendur munu rísa upp og andmæla þeirri ósiðlegu og óboðlegu skelfingariðju sem þar er stunduð.  Í opnum og lýðræðislegum upplýsingasamfélögum framtíðar mun hægt og bítandi verða flett ofan af þeim ósóma sem fram fer í eldisiðnaði og hann opnaður upp á gátt svo allir megi sjá það sem þar fer fram.

Umhverfis- og náttúruverndarfólki er tíðrætt um umhyggju sína fyrir komandi kynslóðum, ekki megi rýra möguleika þeirra til að njóta þeirrar „óspilltu“ náttúru sem núlifandi kynslóðir njóta.  Ekki er síður ástæða til að hafa áhyggjur af því hvað komandi kynslóðir muni segja um skaðlega umhverfishegðun núlifandi kynslóða, t.d. vegna þeirrar stórfelldu mengunar sem stafar frá dýraeldi.  Eitt er þó víst, sú illa meðferð dýra sem nú er tíðkuð í nauðeldi, með þegjandi samþykki fjöldans, mun ekki njóta velþóknunar komandi kynslóða.  Til þess er meðferð dýranna of vægðarlaus og grimmdarleg.  Að óþörfu eru þau varnarlaus látin þola ólýsanlega áþján og kvalræði til þess eins að svala nautnahyggju núlifandi kynslóða með lágmarks tilkostnaði.  Í því samhengi munu komandi kynslóðir líta með hryllingi og skömm til skefjalausrar grimmdar og skeytingarleysis núlifandi kynslóða.




Skoðun

Sjá meira


×