Viðskipti innlent

Borgina vantar yfir fjögur þúsund leiguíbúðir

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ungt fólk vill búa í Reykjavík og þá helst í Vestur- og Miðbæ. Dýrast er engu síður að búa í Vesturbænum.
Ungt fólk vill búa í Reykjavík og þá helst í Vestur- og Miðbæ. Dýrast er engu síður að búa í Vesturbænum. Fréttablaðið/Vilhelm
Ungur aldur, lágar tekjur og litlar íbúðir einkenna þá sem búa vilja í miðbæ Reykjavíkur, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Capacent sem lögð var fyrir borgarráð Reykjavíkur í gær.

Fram kemur að til að bregðast við íbúaþróun, þar sem ungt fólk vill í auknum mæli flytja til borgarinnar, þurfi að bæta við 2.088 til 4.089 leiguíbúðum á næstu þremur árum. Á höfuðborgarsvæðinu öllu segir hins vegar að þurfi að bæta við allt að 4.650 leiguíbúðum. Fram kemur að síðustu ár hafi íbúum fjölgað á öllu höfuðborgarsvæðinu, nema á Seltjarnarnesi.

Könnunin sýnir að flestir horfa til Reykjavíkur í næstu flutningum. 80 prósent 18 til 24 ára vilja flytja til borgarinnar. Þá er uppistaða þeirra sem flytja vilja í miðbæinn ungt fólk á aldrinum 18 til 34 ára. Um leið kemur fram að dýrast sé að byggja og kaupa í póstnúmerum 101 og 107 í borginni.

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir borgina gera sitt besta til að bregðast við með því að skipuleggja svæði fyrir leiguhúsnæði. „Við reynum líka að finna lóðir sem borgin getur lagt fram undir leiguíbúðir, helst miðsvæðis þar sem eftirspurnin er mest og unga fólkið vill vera.“ Hann segir líka markmið í sjálfu sér að skipuleggja borg þar sem ungt fólk vilji helst vera. 

Dagur bendir um leið á að eftirspurnin sem birtist í niðurstöðum skýrslunnar kallist á við áherslur í nýju aðalskipulagi. 

„Þar er einmitt reynt að fjölga litlum og meðalstórum íbúðum miðsvæðis og þróa borgina inn á við, þannig að Reykjavík verði borg, líkt og kallað er eftir hjá nýrri kynslóð sem er að koma inn á fasteignamarkaðinni.“ 

Áhyggjuefni sé hins vegar hversu erfitt fólk eigi meða að láta enda ná saman og eiga fyrir húsnæðiskostnaði, sérstaklega á eftirsóttustu svæðunum. 

„Við verðum að mæta því bæði með því að auka framboð á húsnæði og líka tryggja í skipulagi að staðsetning sé þannig að fólk þurfi ekki að vera á tveimur bílum. Einn bíll vegur gríðarlega þungt í rekstrarkostnaði venjulegs heimilis.“

Frá síðustu könnun, sem gerð var 2011, segir Dagur enn meiri sveiflu í þá átt að fólk vilji búa í Reykjavík og miðsvæðis í Reykjavík. „Síðan kemur í ljós að markaðurinn hefur að hluta mætt þörfinni fyrir leiguhúsnæði. 

Sjá má að leiguíbúðum hefur fjölgað milli kannana. Sem út af fyrir sig er gott að sjá. En viðbótareftirspurnin upp á tvö til fjögur þúsund íbðúir er stóra verkefnið núna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×