Skoðun

Stökkbreytingin

Arnþór Gunnarsson skrifar
Í mínu ungdæmi úti á landi voru margir framsóknarmenn. Þetta var sómakært fólk og lítillátt, starfaði flest hjá kaupfélaginu og ræktaði garðinn sinn. Það lagði góðum málum lið, var annt um samfélagið sitt og mátti ekki vamm sitt vita. Það bjó að sínu, las málgagnið og kaus flokkinn sinn. Hagsmunabröltið á stóra sviðinu var utan þeirra verkahrings. Það var góður andi í kringum þetta fólk, stundum glaðværð en stundum þögn. Það var notaleg þögn. Þá heyrðist ekkert hljóð nema tifið í stofuklukkunni sem var merki um að allt væri í stakasta lagi.

Fjörutíu árum síðar er framsóknarmaðurinn á leið til Reykjavíkur á glæsikerrunni sinni. Hraðamælirinn sýnir 160 km á klst. Það er í góðu lagi, hann á þetta land. Hann lítur ekki í baksýnisspegilinn, það er óþarfi, baklandið er tryggt. Hann er í símanum, það þarf að treysta samböndin og leggja á ráðin um stóru málin.

Í bænum hittir hann félagana. Það fer vel á með þeim og þeir byrja að belgjast út og stækka. Þeir horfa til austurs. Ekki til Norðurlandanna, ekki til Evrópusambandsríkja heldur út á víðlendur Rússlands og Asíu. Þar eru nýju stórveldin, jafningjar þeirra. Og kóngurinn, sjálfur Framsóknar-Pútín. Hann og Brellumeistarinn mikli munu tryggja viðskipti og stöður á norðurslóðum. Þar er lífsrýmið, ónýttu tækifærin, olían, ríkidæmið, mátturinn og dýrðin.

Okkar maður sendir frá sér vellíðunarstunu og glott færist yfir þrútið andlitið. Að utan berst taktfastur sláttur frá skrílnum, sönnun þess, hugsar hann, að Ísland er á réttri leið.

En kjósandinn hugsar (betra seint en aldrei) að tími sé kominn á róttæka endurnýjun í íslenskum stjórnmálum, ný vinnubrögð og að rjúfa tengslin við einstaklinga og hagsmunaöfl sem beita ofríki.




Skoðun

Sjá meira


×