Skoðun

Að gera skyldu mína

Eydís Líndal Finnbogadóttir skrifar
Ég lærði í skátunum að lofa að gera skyldu mína við ættjörðina. Í gegnum tíðina hef ég ekki mikið verið að velta fyrir mér hvað þetta þýddi en með aldrinum hefur þetta loforð æ oftar skotið upp í kollinn á mér. Að lofa að gera skyldu mína þýðir þá væntanlega að við höfum ákveðnar skyldur við ættjörðina eða kannski bara samfélagið.

Með hækkandi sól hellast inn á dagatöl okkar fundarboð vegna aðalfunda hinna ýmsu félaga. Konur og menn sitja sveitt við að leita að nýju fólki í stjórnir, nefndir og ráð pólitískra flokka, íþróttafélaga, skóla, ungmennahreyfinga og líknarfélaga svo fátt eitt sé nefnt.

Að leita að fólki til þátttöku í stjórnum er hins vegar oft eitt erfiðasta verkefni félaga enda slík störf oftast unnin í sjálfboðavinnu. Svo virðist nefnilega að allir séu svo uppteknir. Svör eins og „Guð! ég má ekki vera að því,“ „Ég hef ekki áhuga“ eða bara „Æ nei, ég held að það sé nú ekki skemmtilegt“ berast um stafræna samskiptakerfið okkar.

Skyldur við samfélagið

Vissulega kann svo að vera að fólk sé bundið um tíma vegna anna s.s. vegna barna, náms eða veikinda. En hvernig eigum við að halda úti félagsstarfi sem hluta af okkar samfélagi ef við ætlum okkur aðeins að vera þiggjendur? Er kannski kominn tími til að við veltum líka fyrir okkur skyldum okkar við samfélagið? Að við gefum kost á okkur þegar til okkar er leitað og lítum á það sem samfélagsþjónustu okkar vera þátttakendur.

Það er nefnilega þannig að kannski þarf ekki allt bara að vera svo æðislega skemmtilegt, kannski þurfum við að vera þátttakendur til að gera verkefni skemmtileg. Kannski ættum við ekki bara að vera upptekin við að taka þátt í íþróttastarfinu á æfingum eða fylgja börnum okkar eftir. Kannski ættum við ekki bara að sitja og agnúast út í þá sem gáfu kost á sér í ráð, nefndir og stjórnir heldur vera þátttakendur.

Kannski er kominn tími til að við veltum fyrir okkur að segja já næst þegar leitað er til okkar um þátttöku í stjórn íþróttafélagsins, nefnd hjá skólanum eða að vera á lista hjá stjórnmálaflokknum. Eða, kannski ættum við að vera svo djörf að bjóðast til að vera í stjórninni að fyrra bragði. Kannski verður samfélagið okkar allt aðeins virkara ef við hjálpumst öll að við að gera skyldu okkar.




Skoðun

Sjá meira


×