Skoðun

Ísland sem reykfyllt bakherbergi

Finnur Vilhjálmsson skrifar
Eins og margir fylgdist ég um daginn með Bjarna Benediktssyni rembast við að þylja línurnar (línuna?) sínar í vandræðalega Kastljósviðtalinu. Var hin sókndjarfa en óhemju yfirlætisfulla og vandlega afvegaleiðandi dæmisaga sem Bjarni byrjaði á góð eða slæm hugmynd hjá herráðinu hans? Slæm, fannst mér. Af því að það er ekki nóg að lækka og hægja á röddinni, hvessa augun og bæra hendurnar valdsmannslega. Ekki fyrir Bjarna að minnsta kosti.

Um leið og hann fór í þessar stellingar varð öllum ljóst að Bjarni Benediktsson var hvorki staddur þarna heill né einn. Og þá kem ég að hinu þversagnakennda við þetta viðtal: að öllu leyti nema einu kom hann hörmulega út úr þessu.

Þetta eina er þó sennilega þrátt fyrir allt mikilvægasti kostur Bjarna fram að þessu sem stjórnmálamanns, a.m.k. fyrir alla aðra en harðlínusjálfstæðismenn. Bjarni sýndi þarna að hann á enn þá erfitt með að tala gegn betri vitund og samvisku sinni. Ég vona að hann komist aldrei yfir það, bæði hans og okkar hinna vegna.

En þetta var raunar útúrdúr. Ég vildi koma á framfæri fáeinum punktum varðandi hina alræmdu þingsályktunartillögu Bjarna og félaga í ríkisstjórninni um slit ESB-viðræðnanna.

Falskar forsendur

„Ómöguleikinn“ hans Bjarna byggist á falskri forsendu. Að ríkisstjórnin verði annað hvort að slíta viðræðunum eða klára þær. Þetta er meðvituð rökbrella – og rökvilla: fölsk valþröng (e. false dilemma). Það er látið eins og besti og einfaldasti valkosturinn í þessari stöðu sé ekki til: Að gera ekki neitt. Ekkert stendur í vegi fyrir að hlé á viðræðum standi áfram, svo lengi sem báðir aðilar sætta sig við það. Ekkert frá ESB bendir til annars en að sambandið geri það enn um sinn. Meðan svo er liggur Íslandi ekkert á. Og það eru engin asnaeyru á neinum hér: ESB er auðvitað alveg ljóst hvernig vindar blása núna á Íslandi.

Meðan sambandið er til í ótímabundið viðræðuhlé er það einfaldlega fullgildur valkostur í stöðunni. Og sá besti. Nema tilgangurinn með þessu sé annar, sem raunar er augljóst hér: að eyðileggja sem mest og brenna allar brýr meðan færi gefst. Síðustu daga hafa margir bent nánar á þetta.

Bjarni beitir svo aftur falskri valþröng með því að segja að þetta skipti engu máli. Það sé ekkert verið að hindra það að sækja megi aftur um seinna. Auðvitað ekki, það leiðir bara beint af stjórnskipun landsins, óháð öllu sem pólitíkusar segja eða samþykkja. En Bjarna líkt og öllum öðrum er ljós munurinn á því að byrja þá frá byrjun eða taka upp þráð sem fyrir væri. Síðarnefnda möguleikann hunsar hann. Þar með eru þessi rök hans einnig fölsk og ómerk.

Fölsk stjórnspeki

„Fáránleikinn“ hans Bjarna gengur svo út á að ríkisstjórnin yrði neydd til að vinna gegn stefnu sinni og sannfæringu með áframhaldi viðræðna færi þjóðaratkvæðagreiðsla þannig. Þetta er fölsk stjórnspeki, í ósamræmi við skýr fordæmi úr íslenskri stjórnmálasögu. Þrjár bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur hafa farið fram á Íslandi frá 1944. Bent hefur verið á augljós dæmi af tveimur þeirra á síðasta kjörtímabili þegar þáverandi ríkisstjórn „tapaði“ en fylgdi niðurstöðum þeirra í hvívetna. Bara eitt lýsandi dæmi þar til viðbótar: þarf að minna á hvernig „andstæðingar“ ríkisstjórnarinnar í þeim málum urðu hluti af málflutningsteymi Íslands í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum? Og hvernig allt kapp var svo lagt á að halda þeim málstað fram lagalega af fullum þunga?

Ég vildi hins vegar vekja athygli á þriðja dæminu. Tvær áðurnefndu þjóðaratkvæðagreiðslurnar gera lítið úr fáránleika-kenningu Bjarna. En sú fyrsta – og sú stærsta – veitir henni náðarhöggið. Þjóðaratkvæðagreiðslan 1944 um afnám sambandslaganna og nýja stjórnarskrá var nefnilega líka mjög umdeild. Allir höfðu sjálfstæðið sem markmið – um það var ekki deilt. En leiðin að því markmiði var mikið ágreiningsefni. Þar áttust við lögskilnaðarmenn og hraðskilnaðarmenn. Hér er ekki tóm til að segja nánar frá hvorum málstað, því má fletta upp ef þarf.

Punkturinn er þessi: Hraðskilnaðarmenn höfðu sitt fram. Úr varð að slíta sambandi við Dani tafarlaust. Efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu um það og nýja stjórnarskrá. Þjóðin samþykkti auðvitað næstum samhljóða – þetta var þá orðin eina brautin í boði til sjálfstæðis. Og hver var afstaða þáverandi ríkisstjórnar til þessarar aðferðar, utanþingsstjórnarinnar sem sat frá árslokum 1942 til október 1944 og framkvæmdi dyggilega þennan vilja Alþingis og þjóðarinnar? Jú, forsætisráðherra hennar, Björn Þórðarson, var meðal hörðustu lögskilnaðarmanna.

Það er sem sagt fullt hús allra þjóðaratkvæðagreiðslna í sögu lýðveldisins gegn fáránleika-kenningu Bjarna. Hvað verður þá um fáránleikann?

Höfum loks í huga hér að það stoðar ekki að benda á að 1944 hafi allir verið sammála um sjálfstæðið sem markmið en ekki í dag um inngöngu í ESB. Þá værum við aftur að tala um falska valþröng: við erum ekki að tala af eða á um inngöngu í ESB á þessu stigi.

Það er seinni tíma spurning, ótímabær nú. Einfaldlega vegna þess að við vitum ekki forsendurnar. Og getum ekki vitað þær nema við klárum þessar viðræður. Einhvern tímann. Kannski ekki á næstunni, ef Bjarni og félagar vilja það ekki. Þeir ráða því að svo stöddu. Það þýðir hins vegar alls ekki að þeir megi, án þess að spyrja þjóðina, algerlega að þarflausu og öfugt við skýr og margítrekuð kosningaloforð sín, sturta niður í klósettið öllu sem kostað hefur verið til á reikning þeirrar sömu þjóðar undanfarin ár til að hún geti sjálf svarað þessari stóru spurningu í fyllingu tímans.

Óbærilegur fáránleiki lýðræðisins?

Að síðustu varðandi fáránleika-kenninguna: Er virkilega svo fjarri Bjarna Ben og félögum að þeir séu í reynd þjónar þjóðarinnar – en ekki herrar? Að þeir telji hreinlega súrrealískt að ætlast til að þeir myndu faglega og samviskusamlega fylgja eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna? Þeim verður tíðrætt um óskorað lýðræðislegt umboð sitt til aðskiljanlegustu hluta á grundvelli alþingiskosninga – sem fara fram á fjögurra ára fresti um stærsta graut af stefnumálum og áherslum sem þjóðin fær á einum tíma yfir sig. Gegnir öðru máli um hugsanlega skyldu þeirra til að framfylgja í umboði þjóðarinnar afdráttarlausri niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt einasta afmarkað málefni, skýru svari við einfaldri já-eða-nei spurningu?

Ef þetta gerðist og Bjarni og félagar höndluðu þá ekki fáránleikann þrátt fyrir allt væri svo náttúrulega alltaf eftir eitt örþrifaráð: „Samviskuafsögn“ (aðvörun: nýyrði – enda hingað til óþekkt fyrirbæri í pólitík!). Gott og vel. Þá myndi þjóðin væntanlega bara kjósa þá til valda sem treystu sér til að framfylgja þessum vilja hennar.

Grunnreglur í opinberu lífi

Þó að ólík afstaða landsmanna til ESB sé undirliggjandi í þessu máli þá snýst það alls ekki nú um hana. Það snýst um grunnreglur í opinberu lífi í landinu. Um svik við kjósendur, um virðingu við lýðræðið, pólitíska ábyrgð og heiðarleika. Að ekki sé sagt ótrúlega ósvífni og forherðingu forystumanna ríkisstjórnarinnar og „hinna ónefndu“ sem halda um þræði að tjaldabaki.

Ég hvet alla til að íhuga vandlega hvort þeim lítist vel á Ísland sem reykfyllt bakherbergi. Og til að skrifa undir á thjod.is.






Skoðun

Sjá meira


×