Skoðun

Sannfæring á síðasta söludegi

Lýður Árnason skrifar
Fyrir fimm árum komst til valda ríkisstjórn sem kosin var til að breyta Íslandi. Hún átti að ryðja í burtu mykjuhaug spillingar sem lá yfir landinu, forða þjóðargjaldþroti, færa þjóðinni nýja stjórnarskrá og innleiða nýja sjávarútvegsstefnu. Um þetta ríkti eining. Óeiningin var hins vegar í Evrópumálunum og illu heilli var lagt í þann leiðangur án þess að spyrja land og þjóð. Af stað fór „pólitískur ómöguleiki“ sem kom illilega niður á öðrum málum og gaf viðskilnaðurinn kjósendum lítið tilefni til að endurnýja fyrra umboð.

Samfylkingin, sem nú hrópar á lýðræði, tróð ESB-umsókn upp á þjóðina. Vilji þessa eina flokks lá til grundvallar og menn nýttu aðstöðu sína í botn. Samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn hefndi sín með drabbaraskap og aðildarviðræður komust aldrei á skrið. Hvorugur hafði neitt upp úr krafsinu og þjóðin sem aldrei var spurð, ei heldur.

Í kosningunum sl. vor voru skiptar skoðanir milli framboða á ESB-aðild. Núverandi ríkisstjórnarflokkar voru andvígir ESB en létu þó að því liggja að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna yrði haldin á kjörtímabilinu. Hvorugur flokkanna minntist á viðræðuslit. En með því að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu hljóta menn að hafa gert ráð fyrir þeim möguleika að þjóðin segði já. Sem nú, eftir kosningar, er skilgreindur sem pólitískur ómöguleiki. Er furða þótt marga svíði undan þessum hillingum, ekki sízt þeim fjölmörgu kjósendum sem blekktir voru til fylgilags.

Kurr kjósenda nú snýst ekki um ESB eða ekki ESB. Hann snýst um gagnkvæma skuldbindingu framboða og kjósenda. Hann snýst um að sáttmálar þeir sem gerðir eru við kjósendur fyrir kosningar kollvarpist ekki að þeim loknum.

Á Íslandi er sannfæring þjóðarinnar bundin við einn dag á fjögurra ára fresti og þá kjósum við sannfæringar 63 frambjóðenda. En ef síðasti söludagur sannfæringarinnar er á kjördag vandast málið og við sitjum uppi með eitthvað allt annað en til stóð. Við þennan vanda glímir íslensk þjóð, þingmenn sem forgangsraða eigin sannfæringu ofar samanlögðum sannfæringum allra okkar hinna, vanvirða þjóðaratkvæðagreiðslur og halda ágreiningsmálum kerfisbundið frá þjóðinni. Samt þiggja þeir vald sitt frá henni. Væri ekki eðlilegra að þingmenn sem ekki geta unað þjóðardómi myndu víkja fyrir þjóðinni fremur en þjóðin fyrir þeim?




Skoðun

Sjá meira


×