Skoðun

Þjóðin á að ráða

Árni Páll Árnason skrifar
Tillaga ríkisstjórnarinnar um afturköllun aðildarviðræðna við ESB er óþörf og fer í bága við loforð beggja stjórnarflokka fyrir kosningar. Stjórnarflokkarnir gerðu sér fulla grein fyrir því í aðdraganda síðustu kosninga að þjóðin vildi ekki slíta aðildarviðræðum, þótt hún teldi þær ekki mikilvægasta kosningamálið. Þess vegna lögðu báðir stjórnarflokkarnir til að þjóðin myndi ákveða framhaldið. Hvorugur stjórnarflokkurinn nefndi nokkru sinni þann möguleika að þeir myndu slíta aðildarviðræðum, án þess að spyrja þjóðina.

Formanni Sjálfstæðisflokksins verður nú tíðrætt um þann „ómöguleika“ að ríkisstjórn fari að fyrirmælum þjóðar sinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar ljóst var að stjórnarflokkarnir myndu ná meirihluta á Alþingi var hann spurður í Fréttablaðinu, 24. apríl, um hvort ekki yrði erfitt fyrir flokka sem væru á móti aðild að stjórna lokaspretti aðildarviðræðna. Þá stóð ekki á svari: „Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið og greiddi atkvæði gegn umsókn,“ sagði hann. „En við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það.“

Sumir halda nú í það hálmstrá að þar sem aðildarumsókn var ekki borin undir þjóðaratkvæði sé á einhvern hátt réttlætanlegt að taka af þjóðinni réttinn til að ákveða um framhaldið nú. Það er alröng ályktun.

Stefna síðustu ríkisstjórnar var að ljúka viðræðum og bera endanlegan samning undir þjóðina. Sú stefna byggðist á sömu aðferðafræði og Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson lögðu til í árslok 2008, þegar þeir lögðu til umsókn um aðild að ESB. Kosningaloforð núverandi stjórnarflokka var að bera áframhald viðræðna undir þjóðina. Hvor tveggja leiðin gengur lýðræðislega upp.

Ákvörðun núverandi ríkisstjórnar er allt annars eðlis. Hún felst í að slíta viðræðum án alls samráðs við þjóðina og meina kjósendum að taka ákvörðun sem allir flokkar hafa hingað til lofað að þeir fái að taka.




Skoðun

Sjá meira


×