Innlent

Tæpur þriðjungur fer aftur heim til ofbeldismannsins

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sigþrúður Guðmundsdóttir segir að konur eigi erfitt með að hefja nýtt líf eftir dvöl í Kvennaathvarfinu vegna húsnæðisskorts og bágrar fjárhagsstöðu.
Sigþrúður Guðmundsdóttir segir að konur eigi erfitt með að hefja nýtt líf eftir dvöl í Kvennaathvarfinu vegna húsnæðisskorts og bágrar fjárhagsstöðu. Vísir/Valgarður
Eftir dvöl í Kvennaathvarfinu fóru 27 prósent kvennanna aftur heim í óbreyttar aðstæður, samkvæmt nýrri skýrslu frá Kvennaathvarfinu fyrir árið 2013.

„Það vantar brú fyrir þessar konur, eitthvað sem styður þær á þessu erfiða tímabili,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf. „Þær sækja um skilnað en mennirnir geta dregið það ferli á langinn. Á meðan fá þær ekki engan stuðning í kerfinu og eru í miklu óvissuástandi. Þá gefast þær oft upp og fara aftur heim.“

Fleiri fóru þó heim í óbreytt ástand árið 2012, eða 34 prósent. „Það kemur mér ánægjulega á óvart að konum fer fækkandi sem fara aftur heim til ofbeldismannsins. Það eru góðu fréttirnar við þessa skýrslu,“ segir Sigþrúður.

Það vekur athygli að 51 prósent kvennanna nefna líkamlegt ofbeldi sem ástæðu komunnar í Kvennaathvarfið en hærra hlutfall, eða 64 prósent kvennanna, segjast hafa hlotið líkamlega áverka í sambandinu.

„Konurnar búa og eiga í nánum samskiptum við ofeldismanninn sem veldur því að hann yfirtekur skilgreiningarnar í sambandinu. Hann kannski hrindir konunni og hún fær mar, en hann skilgreinir fyrir þau að þetta hafi ekki verið ofbeldi og hans skýringar gilda.“

Sigþrúður segir þó opnari umræðu um ofbeldi, og þá sérstaklega kynferðislegt ofbeldi, hjálpi konunum að skilgreina og segja frá ofbeldinu. Hún segir til dæmis fleiri konur nefna kynferðislegt ofbeldi sem ástæðu komunnar í athvarfið en áður.

„En það þýðir ekki endilega að fleiri verði fyrir kynferðislegu ofbeldi, þær segja bara frekar frá því sem er gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×