Skoðun

Segjum JÁ við líffæragjöf

Jórunn Sörensen skrifar
Eftir lestur greinar Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðarnefndar, sem birtist í Fréttablaðinu 1. febrúar sl., verður ekki hjá því komist að velta því fyrir sér af hverju hún vill leggja stein í götu þess að gengið sé út frá ætluðu samþykki í frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum um brottnám líffæra en Sigríður Ingibjörg lætur að því liggja í grein sinni að ef til vill þurfi ekki að gera slíka breytingu á lögunum.

Sigríður Ingibjörg kemst að þessari niðurstöðu eftir að hafa heyrt skoðanir „sumra siðfræðinga“ sem hún kallar svo en þeir, segir Sigríður Ingibjörg: „benda á að líffæragjöf sé mikilvæg gjöf og það eigi ekki að taka ákvörðunina um að gefa slíka gjöf af fólki með lagasetningu“.

Það er út af fyrir sig athyglisvert að „sumir siðfræðingar“ líti á það sem neikvætt að löggjöfin vilji greiða fyrir því að líffæri þeirra sem látast með sviplegum hætti séu notuð til lækninga. Með breytingu á lögum um brottnám líffæra, frá ætlaðri neitun í ætlað samþykki, verður viðhorf löggjafans til líffæragjafar jákvætt og þar með verður það eðlilegri og auðveldari ákvörðun fyrir ættingja að samþykkja líffæragjöf látins ástvinar.

Af hverju velur Sigríður Ingibjörg ekki að halda á lofti áliti annarra siðfræðinga eins og til dæmis skoðun dr. Vilhjálms Árnasonar heimspekings sem hann setur fram í bók sinni „Siðfræði lífs og dauða“? Þar ber hann saman kostina tvo – ætlað samþykki og ætlaða neitun og segir: „Í ljósi þess sem ég hef sagt um rök fyrir líffæragjöfum, þá tel ég að fyrra viðhorfið sé ákjósanlegra frá siðfræðilegu sjónarmiði […] Í siðuðu samfélagi er eðlilegra að gera ráð fyrir því að manneskjan vilji koma náunga sínum til hjálpar í neyð heldur en að hún hafni því.“ (V.Á. Reykjavík 1993, s: 174-175).

Þetta viðhorf hafa allar þjóðirnar í kringum okkur nú þegar gert að sínu og breytt sínum lögum um brottnám líffæra í ætlað samþykki. Er það einlæg von mín að Íslendingar beri gæfu til þess að gera það einnig.




Skoðun

Sjá meira


×