Skoðun

2+1 = fjöldi mannslífa

Ingimundur Gíslason skrifar
Hörmuleg dauðaslys í umferðinni undanfarnar vikur vekja til umhugsunar um ástand þjóðvega á Íslandi. Fjögur ungmenni hafa látið lífið þegar bílar úr gagnstæðri átt skullu saman. Ef bílunum hefði verið ekið á svokölluðum 2+1 vegi með vegriði á milli akbrauta í gagnstæða átt er líklegt að afleiðingar slysanna hefðu orðið allt aðrar.

Ég minnist þess að árið 2006 voru uppi áætlanir um svokallaða 2+1 vegi á helstu þjóðbrautum út frá Reykjavík. Þrýstingur hagsmunaaðila og kjördæmapotara varð til þess að ákveðið var að leggja áherslu í staðinn á tvöföldun vega – illu heilli. Svo varð hrun og engir peningar til að leggja slíka lúxusvegi.

2:1 vegir í útlöndum hafa sannað gildi sitt sem fyrirbyggjandi mannvirki til að fækka dauðaslysum í umferðinni. Í sænska tímaritinu Motor kemur fram það mat sérfræðinga að á árunum 2000 til 2012 hafi 2+1 vegir með millivegriði bjargað 600 mannslífum og um það bil 10.000 manns frá annars konar alvarlegum slysum.

Talið er að það kosti einn tuttugasta af verði tvöfaldrar hraðbrautar að breyta 13 metra breiðum vegi í 2+1 veg. Þannig er þetta tiltölulega ódýr aðferð til að fækka banaslysum á vegum landsins.

2+1 vegir eru ekki gallalausir. Snjóruðningstæki geta tafið umferð. Í þungri færð að vetri til geta sjúkrabílar og löregla átt í erfiðleikum með að komast á slysstað. Mótorhjólamenn verða að gæta sín og draga úr hraða. Þeir sem eru að flýta sér geta þurft að draga úr hraða tímabundið. Fyrir mér er það nú bara kostur. Þess má geta að á góðum 2+1 vegum í Svíþjóð er hámarkshraði sums staðar 120 km á klukkustund.

Íslensk stjórnvöld eru hvött til að fjölga 2+1 vegum á Íslandi til að fækka alvarlegum umferðarslysum.




Skoðun

Sjá meira


×