Skoðun

Nám í móðurmáli á ekki að vera valkvætt

Anna María Jónsdóttir skrifar
Hópur nemenda með annað móðurmál en íslensku fer stækkandi, en fær þó ekki kennslu í sínu móðurmáli nema að litlu leyti. Hingað til hefur móðurmálskennsla verið valkvæð nema ef undan er skilin kennsla í sænsku, norsku og pólsku. Nemendur sem sækja tíma í framangreindum tungumálum eru þá undanskildir námi í dönsku. Það er viðurkennt og þekkt að undirstaða fyrir góðum árangri í námi í öðru tungumáli er að hafa gott vald á eigin móðurmáli. Margir þeir nemendur sem ekki fá kennslu í sínu móðurmáli þurfa auk þess að læra dönsku og ensku til viðbótar við íslenskuna.

Margir nemendur standa sig mjög vel í námi í íslensku sem öðru tungumáli meðan aðrir ná ekki almennilegum tökum á málinu og jafnvel dragast aftur úr þegar auknar kröfur eru gerðar um færni í tungumálinu, þrátt fyrir að leggja hart að sér við námið. Margir þessara nemenda hefðu náð mun betri almennum námsárangri ef þeir hefðu jafnframt fengið kennslu í sínu móðurmáli. Hugsanlega má rekja ástæður brottfalls úr framhaldsskóla hjá þessum hópi að einhverju leyti til þessa, án þess að það hafi sérstaklega verið rannsakað mér vitanlega.

Fengur fyrir samfélagið

Börn sem hafa íslensku sem móðurmál og búið hafa á Norðurlöndunum, þ.e. Svíþjóð og Noregi, fá þegar heim kemur undanþágu frá dönsku og leggja þá stund á sænsku eða norsku. Þetta er vel og þó er ekki um móðurmál þessara barna að ræða. Það hlýtur að teljast mismunun að þeir sem búið hafa t.d. í þýsku-, frönsku-, eða spænskumælandi landi hafi ekki sömu kosti. Vilji þeir áfram rækta færni sína í viðkomandi tungumáli þurfa þeir að gera það á eigin vegum.

Nám í móðurmáli á ekki að vera valkvætt, frekar en að nám í íslensku er valkvætt. Sveitarfélögin eiga að styrkja alla nemendur til náms í þeirra móðurmáli og þau börn sem eru tvítyngd eiga að geta lagt stund á bæði tungumálin/móðurmálin. Góð tungumálakunnátta er undirstaða þess að geta spjarað sig í samfélagi, átt í fjölþættum samskiptum, gert sig skiljanlegan við mismunandi aðstæður og stundað krefjandi nám.

Ég mun ef ég fæ til þess traust beita mér fyrir því að öll börn geti lagt stund á móðurmál sitt hvort sem um er að ræða þýsku, spænsku, víetnömsku, kínversku, tékknesku, arabísku eða farsi eða eitthvað annað. Það má til viðbótar geta þess að það er fengur fyrir samfélagið að hér búi einstaklingar sem hafa góða færni í hinum ýmsu tungumálum, það getur til framtíðar nýst okkur í alþjóðasamskiptum.




Skoðun

Sjá meira


×