Skoðun

Lánsveðshópurinn enn skilinn eftir

Sverrir Bollason skrifar
Tillögur um höfuðstólslækkun verðtryggðra lána sem kynntar voru í haust taka ekki með markvissum hætti á stöðu þeirra sem keyptu fasteignir með lánsveði. Þessum mjög skuldsetta hópi hefur verið gefinn lítill gaumur þar sem umfjöllun um lánsveð er mjög takmörkuð í skýrslu sérfræðingahóps sem liggur til grundvallar tillögunum.

Fær ekki 110% leiðina

Allt frá því að 110% leiðin var kynnt til sögunnar í ársbyrjun 2011 hefur lánsveðshópurinn barist fyrir að fá að sitja við sama borð og þeir sem nýtt gátu sér þá leið. Þær tillögur sem nú hafa verið kynntar nýtast lánsveðshópnum aðeins með handahófskenndum hætti. Hjón, sambúðarfólk og einstæðir foreldrar gátu fengið allt að 7 m.kr. niðurfelldar í 110% leiðinni. Nýkynntar tillögur gera ráð fyrir að hámarks niðurfelling fyrir hvert heimili sé fjórar milljónir króna. Heimili hjóna og sambúðarfólks verða því af þremur milljónum króna samanborið við 110% leiðina. Fái fólk þó hámarksniðurfellingu samkvæmt tillögum stjórnvalda verða margir engu að síður yfirveðsettir.

Lítill ávinningur

Samkomulag sem gert var við lífeyrissjóði landsins í apríl 2013 um að greiða niður skuldir lánsveðshópsins niður að 110% veðsetningu hefur verið í meðförum þingsins síðan í haust. Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að ekki verði staðið við það samkomulag. Lánsveðshópurinn er hins vegar líklega sá hópur sem mest er skuldsettur. Samkvæmt áðurnefndu samkomulagi sem gert var við lífeyrissjóði landsins í apríl sl. er áætlaður kostnaður ríkisins við að rétta af hlut Lánsveðshópsins, í samræmi við 110% leiðina, um 3 milljarðar króna. Beinn kostnaður ríkisins vegna þeirra tillagna sem nú hafa verið kynntar er margfalt hærri eða um 80 milljarðar króna auk eftirgefins skatts vegna nýtingar séreignarlífeyrissparnaðar til endurgreiðslu húsnæðislána.

Einn hópur skilinn útundan

Fyrir hönd Lánsveðshópsins lýsi ég yfir vonbrigðum með að stór hluti hans er enn og aftur skilinn eftir í aðgerðum stjórnvalda gegn þeim skulda- og greiðsluvanda sem varð til vegna efnahagshrunsins árið 2008. Nú að rúmlega fimm árum liðnum hefur vandi Lánsveðshópsins ekki verið leystur með markvissum hætti. Ekki er unnið í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag við lífeyrissjóðina. Miklum fjármunum er til kostað að færa niður lán almennings en einn hópur er sérstaklega skilinn eftir. Lánsveðshópurinn kallar eftir réttlæti, að stjórnvöld viðurkenni vandann og vinni að því að tryggja Lánsveðshópnum sömu úrræði og öðrum skuldurum sem nýtt gátu sér 110% leiðina.




Skoðun

Sjá meira


×