Viðskipti innlent

Segja launahækkun forstjóra nema 4,8 prósentum

Bjarki Ármannsson skrifar
Í frétt Heimis var talað um launaskriðu forstjóra á milli ára.
Í frétt Heimis var talað um launaskriðu forstjóra á milli ára. Vísir/Valli
Ýmislegt er að athuga við mat útgáfufélagsins Heims á launabreytingum forstjóra á Íslandi árið 2013. Þetta segir í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins en í umfjöllun Heims sagði að meðaltekjur 200 launahæstu forstjóra landsins hefðu hækkað um þrettán prósent milli ára.

Í frétt Samtaka atvinnulífsins eru teknar saman meðaltekjur forstjóra sem voru í sömu störfum milli ára og þar fæst út að hækkunin hafi numið 4,8 prósentum. Meðaltekjur þessara 311 forstjóra hafi verið 1.646 þúsund krónur á mánuði árið 2013 samanborið við 1.570 þúsund krónur árið 2012.

Munurinn á útreikningunum felst í því að Samtök atvinnulífsins skoða einungis launabreytingar þeirra forstjóra sem gengdu sömu störfum milli ára. Þetta er sú aðferð sem Hagstofa Íslands notar við mat á launabreytingum milli tímabila.

Samtök atvinnulífsins segja það mikilvægt að skoða þessa niðurstöðu í ljósi umræðu sem fylgir útgáfu tekjublaðsins ár hvert um laun þeirra tekjuhærri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×