Íslenski knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið valinn í súperlið Pepsi með fótboltagoðunum Lionel Messi, Robin van Persie, Sergio Aguero, Jack Wilshire, David Luiz, Sergio Ramos, Juan Guillermo Cuadrado, Clint Dempsey, Tarik Elyounoussi, Maynor Figueroa, Mario Gomez, Vincent Kompany, Kemar Lawrence, Victor Moses, Peter Osaze Odemwingie, Oribe Peralta, Andriy Pyatov og Mohamed Salah. Þessi hópur myndar eitt magnaðasta og hæfileikaríkasta lið allra tíma að mati Pepsi og munu knattspyrnumenn hvetja aðdáendur um heim allan til að tileinka sér slagorðið „Live for Now“ á árinu 2014.
Súperliðið er afhjúpað í dag og er þessi afhjúpun einnig upphafið á spennandi viðburðum út árið sem eru hluti af Pepsi-fótboltaherferðinni 2014. Leikmennirnir munu meðal annars leika aðalhlutverkið í alþjóðlegri sjónvarpsauglýsingu sem afhjúpuð verður síðar á árinu.

„Myndin af Gylfa verður á hálfs lítra og tveggja lítra flöskum sem fara í sölu strax eftir páska. Þá fer Pepsi-deildin hér heima líka að rúlla þannig að þetta helst allt í hendur. Við setjum kóða aftan á flöskumiðana sem fólk getur slegið inn í smáforrit í gegnum Facebook. Fólk fær að vita strax hvort það vinnur eða ekki og á möguleika á að vinna mikið af flottum fótboltatengdum vinningum,“ segir Jón Mikael.
„Gylfi verður líklegast bara á umbúðum á Íslandi og ég hef trú á því að sjónvarpsauglýsingin með honum verði keyrð meira og minna bara á Íslandi. Herferðin fer á fullt fljótlega eftir páska og samanstendur af sjónvarpsauglýsingu og margs konar markaðsefni fyrir fjölbreytta fjölmiðla og verslanir. Gylfi mun vera í aðalhlutverki, ásamt Lionel Messi, í herferðinni sem keyrð verður á Íslandi. Aðrir leikmenn sem verða í herferðinni á Íslandi eru Jack Wilshere, Sergio Aguero og David Luiz. Það mun allt snúast um fótbolta hjá okkur næsta sumar, eins og fleirum væntanlega. Pepsi-deildin og Gylfi Sigurðsson eru tengingar sem Pepsi og Ölgerðin eru ótrúlega stolt af og við ætlum okkur að gera íslenskri knattspyrnu og knattspyrnumönnum hátt undir höfði í sumar.“
Aðspurður um kostnað við herferðina segir Jón Mikael hana ekki kosta mikið meira en hefðbundna Pepsi-herferð.
„Ég get ekki gefið upp hvað Gylfi fær í sinn hlut en herferðin í sjálfu sér kostar ekki mikið meira en fótboltaherferðir sem Pepsi hefur verið með í gegnum tíðina.“
Gylfi vill ekki gefa upp hvað hann fær greitt fyrir herferðina en til dæmis má taka að Lionel Messi fékk tvær milljónir dollara, rúmlega 230 milljónir króna, fyrir herferð hjá sportvörumerkinu Adidas. Þá er stutt síðan söngkonan Beyonce landaði samningi við Pepsi og fékk fyrir það fimmtíu milljónir dollara, tæpa sex milljarða króna.

Síðasta ár endaði með því að Gylfi var valinn Íþróttamaður ársins á Íslandi og árið byrjar með súperliði Pepsi. Hvernig leggst árið 2014 í Gylfa?

„Auðvitað vonast ég til þess að fá að spila á sunnudag en liðið er búið að vinna tvo til þrjá leiki í röð í deildinni og persónulega finnst mér að ætti ekki að breyta liðinu eftir þessa sigra. En ég vonast allavega til þess að vera í hópnum.“
Og þá liggur beinast við að spyrja Gylfa hvort hann sé sólginn í Pepsi.
„Já, ég er mikill Pepsi-maður.“
