Skoðun

Ný tækifæri til krabba-meinsrannsókna

Jakob Jóhannsson skrifar
Ár hvert 4. febrúar er alþjóðadagur krabbameins, og þann dag eru tekin fyrir tiltekin viðfangsefni á þessu sviði og þeim gerð skil með mismunandi hætti í fjölmörgum löndum. Í ár er lögð áhersla á að vinna gegn ýmsum bábiljum og vanþekkingu, en það að auka þekkingu er sannreynd leið til að ná betri árangri í forvörnum og meðferð krabbameins.

Krabbameinsfélag Íslands vinnur að þekkingaröflun, þekkingarsköpun og þekkingarmiðlun. Eitt af markmiðum félagsins samkvæmt lögum þess frá upphafi er að efla krabbameinsrannsóknir, m.a. með söfnun og vísindalegri úrvinnslu upplýsinga og með rekstri vísindasjóðs. Undanfarin ár (eftir hrun) hefur ekki verið veitt styrkjum úr tveimur sjóðum í umsjón félagsins, Kristínarsjóði og Ingibjargarsjóði, en Krabbameinsfélagið hefur veitt rannsóknarstyrki t.a.m. með framlögum úr Mottumars. Jafnframt hefur á hverju ári verið lagt fjármagn til rannsókna, m.a. á vegum Krabbameinsskrárinnar.

Krabbameinsfélagið hefur á undanförnum árum lýst því yfir að hluti söfnunarfjár muni renna til rannsókna á krabbameini. Stuðningur almennings og fyrirtækja við verkefni félagsins hefur nú gert kleift að stofna öflugan vísindasjóð, sem veiti styrki til íslenskra krabbameinsrannsókna sem munar um. Undirbúningur er hafinn að stofnun sjóðsins.

Nýtur félagið ráðgjafar margra sérfróðra einstaklinga við það verk, til að tryggja að lögformlega sé að verki staðið og að sjóðurinn verði eins skilvirkur og unnt er þegar hafist er handa við styrkveitingar. Stofnskrá verður lögð fram á næstu mánuðum og styrkir auglýstir til umsóknar á grundvelli hennar. Leitað verður til fyrirtækja um stofnframlög til viðbótar við framlag félagsins.

Það er stjórn Krabbameinsfélagsins mikið ánægjuefni að kynna þessa ákvörðun á alþjóðadegi krabbameins og færa jafnframt miklar þakkir öllum þeim, sem styrkt hafa félagið með margvíslegum hætti á undanförnum árum. Sá stuðningur verður nú til að efla rannsóknir á sviði krabbameina hér á landi, en án velvildar almennings í landinu og trausts gætu þessi áform ekki orðið að veruleika.




Skoðun

Sjá meira


×