Innlent

Matur myndi hækka um 33 þúsund á ári hjá hinum tekjulægstu

Linda Blöndal skrifar
Rannsóknasetur verslunarinnar á Bifröst birti í dag tölur um útgjaldaaukningu heimilanna eftir tekjuhópum vegna hækkunar virðisaukaskatts á matvæli úr 7% í 12%, eins og fjárlagafrumvarpið boðar. Miðað við neyslukönnun Hagstofunnar frá 2011 og 2012 eyða ólíkir tekjuhópar hlutfallslega svipað miklu í matarkaup eða frá 14,5% af útgjöldum tekjulægstu heimilanna til 15,3%. Heimili landsins eyða að meðaltali 15 prósentum af útgjöldum sínum í matvæli.

Hækkar um 42 þúsund að meðaltali

Þegar búið er að leiðrétta fyrir verðlag í dag hækkar matur í krónum mest eftir því sem hærri tekjurnar eru sem gæti skýrst af ólíkum lífsstíl tekjuhópanna. Meðalhækkun á útgjöldum hvers heimilis verður 42 þúsund krónur á ári. Í útreikningunum er ekki tekið tillit til mótvægisaðgerða eins og til dæmis lækkun sykurskatts.

Meiri munur miðað við ráðstöfunartekjur

Myndin lítur öðruvísi út ef miðað er við ráðstöfunartekjur. VR hefur bent á að launafólk með lægstu tekjurnar verji í dag 17,6 prósentum ráðstöfunartekna sinna í matvörur á móti 10,7 prósent hjá þeim sem hafa hæstu tekjurnar. ASÍ hefur gefið út að tekjulægstu heimilin noti meira eða 20 prósent ráðstöfunartekna sinna til kaupa á mat á meðan tekjuhæstu heimilin noti einungis tíunda hluta tekna sinna í mat og drykk.

Matarkarfan ríflega 500 krónum hærri

Stöð tvö fyllti í dag í matarkörfu á ósykruðum mat sem kostaði rúmlega 9800 krónur og er 7% VSK af þeirri körfu 647 krónur. Eftir hækkun myndi þessi sama karfa kosta 10.308 krónur og vaskurinn yrði rúmlega 1100 kr.  

Heildaráhrifin jákvæð

Áhrif fjárlagafrumvarpsin í heild eru þó jákvæðari en VR og ASÍ hafa talið, að mati Viðskiptaráðs sem birtist í dag grein þar sem segir að teljulægstu heimilin muni hagnast á móti á niðurfellingu vörugjalda eins og boðað er. Tekjulægstu heimilin kaupi ekki einungis hlutfallslega mest af matvælum fyrir ráðstöfunarfé sitt heldur líka vörur sem losna muni undan skatti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×