Skoðun

Sameinuðu þjóðirnar bjóða til kosninga

Berglind Sigmarsdóttir skrifar
Það má með sanni segja að allt snúist um kosningar þessa dagana. Á þessu ári gangast Sameinuðu þjóðirnar einnig fyrir kosningum. Í fyrsta skipti í sögunni bjóða Sameinuðu þjóðirnar hverjum einstaklingi í heiminum að hafa sitt að segja um framtíð þróunarstarfs í heiminum. Þessar kosningar snúast þó ekki um að kjósa stjórnmálaflokk eða velja leiðtoga ríkis.

Kosningarnar eru liður í endurmótun Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2000 en umræða um hvað taka skuli við af þeim eftir árið 2015 stendur nú sem hæst. Þetta er vafalaust eitt viðamesta stefnumótunarferli sem fram hefur farið á heimsvísu þar sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna, stjórnvöld, félagasamtök, einkageirinn og almenningur hefur sitt fram að færa. Kosið er ýmist á vefnum í gegnum MyWorld2015.org, með því að fylla út eyðublöð á götum úti eða í símanum. Í þessum kosningum getur þú lagt þitt af mörkum til að móta heiminn.

Félög Sameinuðu þjóðanna eru starfrækt í yfir 100 löndum og hafa verið til frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Tilgangur þeirra hefur meðal annars verið að mynda brú milli Sameinuðu þjóðanna og almennings. Kosningarnar á vefsíðunni My World hafa einmitt sama tilgang. Sameinuðu þjóðirnar vilja virkja almenning til að kjósa en kosið er á milli sex sviða af sextán alls sem mundu bæta líf þeirra umtalsvert.

Rúmlega tvær milljónir manna í 194 ríkjum hafa þegar kosið og eru niðurstöðurnar birtar jafnóðum. Með þessu fæst einstök mynd hvað fólk setur í forgang fyrir framtíðina. Í dag telur fólk að góð menntun, betri heilsugæsla og aukin atvinnutækifæri muni bæta lífið og auka lífsgæðin. Ekki ósvipaðar áherslum stjórnmálaflokka okkar hér á landi í aðdraganda kosninga. Þetta segir okkur að hvar sem fólk býr í heiminum, kýs það sömu grundvallarmannréttindin: heilsu, menntun, vinnu og heiðarlega stjórn sem tekur mið af óskum fólks. Þetta síðastnefnda er í þriðja sæti hjá þeim Íslendingum sem nú þegar hafa kosið.

Niðurstöður kosninganna verða nýttar til grundvallar ákvarðanatöku í milliríkjasamningum á vegum Sameinuðu þjóðanna og munu tryggja að einstaklingar hafi áhrif á nýjar áætlanir á heimsvísu. Þetta eru því einstakar kosningar og þær fyrstu sinnar tegundar. Við hvetjum Íslendinga að kjósa, hvort sem það er fyrir Ísland eða heiminn allan því öll kjósum við jú betri heim.




Skoðun

Sjá meira


×