Innlent

Segir ritarann með lykilinn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Forstjórinn segist ekki ráða yfir sumarhúsi OR við Þingvallavatn. Íveruhúsið er til vinstri og bátaskýlið til hægri.
Forstjórinn segist ekki ráða yfir sumarhúsi OR við Þingvallavatn. Íveruhúsið er til vinstri og bátaskýlið til hægri. Fréttablaðið/Pjetur
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segist ekki vita hver noti sumarhús við Þingvallavatn sem upplýsingafulltrúi fyrirtækisins segir forstjórann hafa ráðstöfunarrétt yfir.

Bjarni neitar því að hafa ráðstöfunarrétt yfir bústaðnum og kveðst ekki fylgjast með notkun á honum. „Ritarinn minn er með lykilinn. Sennilegast eru þetta framkvæmdastjórar hjá fyrirtækinu sem hafa notað húsið,“ segir Bjarni sem sjálfur kveðst ekki hafa notað bústaðinn í yfir tvö ár.

„Ég var þarna nokkrar nætur eftir að ég tók við forstjórastarfinu til að setja mig inn í málefni Orkuveitunnar í ró og næði,“ segir Bjarni sem varð forstjóri á árinu 2011.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu ákvað stjórn Orkuveitunnar á árinu 2012 að selja lóðir sem einstaklingar hafa leigt undir sumarhús við Þingvallavatn í landi Nesjavalla allt frá því fyrirtækið eignaðist jörðina fyrir hálfri öld. Um er að ræða níu sumarhús. Eigendur sex þeirra höfðu lóðarleigusamninga til 50 ára og eigendur þriggja bústaða eru með leigusamninga til 99 ára.

Bjarni segir enn unnið að því að ná samkomulagi við eigendur bústaðanna. Allt eins geti farið svo að lóðarleigan verði framlengd um einhvern tiltekinn tíma að uppfylltum skilyrðum. Mikilvægt sé fyrir Orkuveituna að hafa full umráð yfir landinu, meðal annars vegna þess að þar sé vatnstökusvæði fyrir Nesjavallavirkjun.

Að sögn Bjarna munu örlög sumarbústaðar Orkuveitunnar meðal annars ráðast af því hver verður niðurstaða með hin sumarhúsin. „Reyndar er þessi svokallaði forstjórabústaður á viðkvæmasta staðnum þannig að mér finnst nú líklegt að hann verði fyrstur til að fara.“

Eigendur hinna sumarhúsanna hafa sameinast í málinu og fer einn þeirra, Tómas Þorvaldsson héraðsdómslögmaður, fyrir hópnum. Ekki hefur náðst tal af Tómasi undanfarna daga. Annar eigandi sem rætt var við kvaðst ekki skilja hvaða sjónarmið lægju að baki hjá Orkuveitunni. „Ég get ekki séð að við séum fyrir nokkrum manni,“ sagði þessi eigandi sem ekkert vildi láta hafa eftir sér undir nafni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×