Viðskipti innlent

Sjallinn rifinn og hótel byggt í staðinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá skemmtun í Sjallanum.
Frá skemmtun í Sjallanum.
Sala á skemmtistaðnum Sjallanum á Akureyri er svo til frágengin. Stærsti hluti staðarins hefur þegar verið seldur og aðeins á eftir að ganga formlega frá sölu á hluta jarðhæðarinnar.

Vikudagur.is greindi fyrst frá en langur aðdragandi hefur verið að sölunni. Kaupendur gerðu bindandi tilboð í húsnæðið í ársbyrjun 2012. Fasteignasalan Þingholt hefur unnið með hóp fjárfesta en komið hefur fram að til standi að rífa Sjallann og reisa hótel á reitnum.

RÚV greindi frá því í desember 2013 að ráðgert væri að byggja hótel og orlofsíbúðir á gamla staðnum. Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar samþykkti að þrjár lóðir við húsið yrðu sameinaðar í eina. Því væri heimilt að byggja eitt húsnæði á sameinuðum reit.

Í samþykktinni kom fram að skipulagsnefnd bæjarins hefði rétt til þess að taka afstöðu til útlits og efnisvals hússins. Útlit nýrrar byggingar í stað Sjallans er því háð samþykkti bæjaryfirvalda.

Stefán Antonsson hjá fasteignasölunni Þingholti vildi sem minnst um málið segja á þessu stigi þegar Vísir náði af honum tali. Kaupferlið væri í góðri vinnslu og reiknað væri með að því lyki á næstu vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×