Innlent

Flúði fram af svölum af 4. hæð

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Um klukkan hálf níu í gærkvöldi var karlmaður handtekinn við veitingahús í miðbæ Reykjavíkur en hann hafði ráðist að starfsmanni staðarins. Um tveimur klukkustundum áður hafði sami maður verið handtekinn fyrir ónæði, þá á öðru veitingahúsi. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu þar til ástand hans lagaðist.

Þá handtók lögreglan karlmann í Hafnarfirði um klukkan 21 en hann var grunaður um vörslu og sölu fíkniefna og var hald lagt á efni sem maðurinn framvísaði. 

Rétt eftir klukkan miðnætti var tilkynnt um eld í fjölbýlishúsi í Kópavogi en eldur logaði í fatahrúgu í geymslu. Töluverður reykur var á sameign en eldurinn var fljótt slökktur. Ekki er vitað um eldsupptök.

Lögreglan hafði einnig afskipti af nokkrum ökumönnum, ýmist vegna gruns um ölvun eða akstur undir áhrifum fíkniefna. 

Þegar klukkan var gengin ellefu mínútur í tvö var lögregla kölluð að fjölbýlishúsi í Austurborginni en þar var grunur um heimilisofbeldi. Svo reyndist ekki vera en á vettvangi fann lögreglan fíkniefnaplöntur og voru tveir menn handteknir og vistaðir í fangageymslu. Annar aðilinn reyndi að flýja vettvang með því að fara fram af svölum á 4. hæð en lögregla náði honum skömmu síðar.

Þá var tilkynnt um innbrot á snyrtistofu í Kópavogi um korter yfir tvö en innbrotsþjófar höfðu spennt upp glugga og farið þannig inn á snyrtistofuna. Ekki er vitað hverju var stolið.

Um tuttugu mínútur í þrjú var tilkynnt um líkamsárás í Breiðholti en þar hafði maður verið sleginn í höfuðið með verkfæri og hlaut hann skurð. Árásaraðilinn var vistaður í fangageymslu lögreglu. 

Lögreglan fékk fjölda tilkynningar um partýhávaða og fleira tengt ölvun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×