Innlent

BHM blæs til sóknar í Háskólabíói í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður BHM segir launahækkanir í kjarasamningum á almennum markaði ekki duga félögum í BHM. Ísland sé ekki samkeppnishæft í launum við Norðurlöndin og mikilvægt sé að halda í háskólamenntað fólk.
Formaður BHM segir launahækkanir í kjarasamningum á almennum markaði ekki duga félögum í BHM. Ísland sé ekki samkeppnishæft í launum við Norðurlöndin og mikilvægt sé að halda í háskólamenntað fólk. vísir/gva
Ísland er ekki samkeppnishæft í launakjörum háskólamenntaðs fólks við Norðurlöndin að mati formanns Bandalags háskólamanna, sem boðar til fjöldafundar í Háskólabíói í dag. Formaðurinn segir launahækkanir á almennum vinnumarkaði ekki samningsgrundvöll fyrir BHM.

Kjarasamningar um átta þúsund  BHM félaga urðu lausir um síðustu helgi og boðar félagið til félagsfundar í Háskólabíói klukkan þrjú í dag til að kynna kröfugerðina fyrir gerð nýs kjarasamnngs.

Guðlaug Kristjánsdóttir formaður BHM segir nýjan samning varða um 4.600 starfsmenn hjá ríkinu en restin vinnur hjá sveitarfélögum og hálfopinberum stofnunum.

„Við erum fyrst og fremst að fara yfir stöðuna í okkar kjaramálum. Þróunina hingað til, kröfurnar okkar núna og rökstuðninginn með þeim. Leggja mat á stöðuna og næstu skref,“ segir Guðlaug.

Hún segir þær launahækkanir sem samið var um á almenna markaðanum í desember ekki duga BHM félögum.

„Það er ekki umræðugrundvöllur í okkar samningum. Það eru óskaplega ólíkar aðstæður sem þessir hópar eru í. Kjör okkar hafa staðið kjurr frá hruni og tekið afturförum og við höfum áhyggjur af stöðu háskólamenntunar á íslenskum vinnumarkaði,“ segir formaðurinn.

Áherslurnar séu því allt aðrar en hjá Alþýðusambandinu. Frá hruni hafi háskólamenntað fólk rétt eins og iðnaðrmenn flúið land og þá sérstaklega til Norðurlandanna.

„Ísland er illa samkepnnisfært um menntað vinnuafl. Við erum með fjölmargt ungt fólk í námi og við þurfum á því að halda. Það þarf að byggja upp íslenskan vinnumarkað og sérstaklega þekkingargeirana á næstu árum ef við eigum að efla hérna hagsæld,“ segir Guðlaug.

Það þurfi að setja þennan hóp í forgang og sjá til þess að hann standi ekki í stað eða færist aftur á bak í kjörum. Hagtölur haldi ekki utan um menntun þeirra sem flytja úr landi, en mun fleiri hafi flutt frá landinu undanfarin ár en til þess.

„Við vitum hins vegar og félögin okkar finna fyrir því að það eru að verða til stórar deildir af þeirra fólki í nágranalöndunum. Þar er næga vinnu að fá virðist vera fyrir marga af okkar fólki og kjörin margfalt betri. Þannig að við verðum vissulega mjög vel vör við þetta,“ segir Guðlaug.

Þá er Ísland ekki samkeppnishæft við Norðurlöndin?

„Nei alls ekki. Svo verðum við að muna að það eru erfiðleikar hér á húsnæðismarkaði, það eru hér lánavandræði og fleira og fleira. Þannig að við stöndum höllum fæti með ýmsa hluti og við þurfum að standa okkur í launamálunum,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×