Viðskipti innlent

Breytingarnar eiga að auka tekjur Plain Vanilla

Haraldur Guðmundsson skrifar
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla, segir fyrirtækið horfa til tveggja tekjuöflunarleiða.
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla, segir fyrirtækið horfa til tveggja tekjuöflunarleiða. Vísir/Vilhelm
Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla, ætlar að kynna nýja uppfærslu spurningaleiksins QuizUp í byrjun næsta árs. Leikurinn mun þá á vissan hátt breytast í samfélagsmiðil, sem á að keppa við Facebook og Twitter, sem hægt verður að nota í flestöllum snjalltækjum og vefvöfrum.

„Við horfum því ekki lengur á QuizUp sem snjallsímaleik heldur samfélagsnet sem geti haft áhrif á líf fólks um allan heim og skapað fyrirtækinu meiri verðmæti,“ segir Þorsteinn.

Fyrirtæki hans vinnur nú einnig að þróun nýs gjaldmiðils fyrir QuizUp. Gjaldmiðillinn á að auðvelda Plain Vanilla að afla tekna með vörusölu. Tekjur fyrirtækisins eru ekki enn farnar að standa undir kostnaði þrátt fyrir að um 30 milljónir snjalltækjaeigenda hafi náð í QuizUp frá því spurningaleikurinn kom út fyrir ári.

Áhugamálin brjóta ísinn

Uppfærslan hefur verið í þróun síðan í sumar og að sögn Þorsteins unnin í góðu samstarfi við Apple og Google. Hann segir hugmyndina hafa komið upp þegar starfsmenn Plain Vanilla fóru að fá tölvupóst frá notendum QuizUp með reynslusögum af því hvernig leikurinn hefði leitt saman notendur með sameiginleg áhugamál.

„Það er svo tryllt að vara sem við bjuggum til geti haft þessi áhrif á líf fólks og jafnvel leitt til þess að notendur frá ólíkum heimshornum finni ástina í gegnum leikinn okkar. Ástæðan fyrir því að þetta er að gerast er sú að QuizUp, ólíkt flestum öðrum leikjum, býður upp á um þúsund mismunandi spurningaflokka og vettvang sem tengir fólk saman. Við erum því að bjóða upp á þessa tengingu en á Facebook á fólk til dæmis aðallega í samskiptum við notendur sem það þekkir þegar úr raunveruleikanum. Það er mikið af einmana fólki í heiminum og að tengja fólk saman í gegnum sameiginleg áhugamál er nokkuð sem engum samfélagsmiðli hefur tekist að gera svo vel sé.“

Þorsteinn segir það hafa komið sér á óvart hversu flókin tæknin að baki nýju uppfærslunni er. Hann hafi séð ýmislegt þegar fyrirtækið vann að gerð QuizUp en að þróun samfélagshlutans slái öll fyrri met.

„Það er bara gaman og ég held að það verði erfitt fyrir aðra að leika það eftir að tengja saman spurningaleik eins og þennan við samfélagsmiðil,“ segir Þorsteinn.

„En við erum ekki að byrja frá grunni heldur eru um 30 milljónir notenda af QuizUp. Ég er því með fiðrildi í maganum yfir því að kynna vöruna fyrir heimsbyggðinni.“

Spurður hversu margir af þessum 30 milljónum notenda séu virkir notendur í dag segir Þorsteinn fyrirtækið ekki gefa upp slíkar upplýsingar.

„En við erum alltaf að vaxa og það bætast við 30 þúsund nýir notendur á dag.“

Vörusala og auglýsingatekjur

Þorsteinn segir fyrirtækið horfa til tveggja tekjuöflunarleiða. Annars vegar sé í þróun áðurnefndur gjaldmiðill, sem hefur ekki enn fengið nafn, sem á að gera Plain Vanilla kleift að selja vörur innan QuizUp.

„Svo eigum við talsverða möguleika í samstarfi við fyrirtæki sem tengjast viðfangsefnum leiksins,“ segir Þorsteinn. Hann bætir við að Plain Vanilla hafi áður kynnt samstarf sitt við fyrirtæki á borð við Google og Coca Cola sem hafi ákveðið að styrkja vissa spurningaflokka Quizup um ákveðinn tíma. Þannig hafi auglýsendum verið gefin tækifæri til að koma skilaboðum sínum áleiðis.

„Án þess að það séu einhverjar óþolandi vefborðaauglýsingar að poppa upp í leiknum. Við teljum að nýja uppfærslan verði betur til þess fallin að vinna með svona samninga og þetta er tekjuöflun sem við erum mjög spennt fyrir,“ segir Þorsteinn.

Aðspurður hvaða fyrirtæki Plain Vanilla eigi nú í viðræðum við segir Þorsteinn að hann geti ekki tjáð sig um það en bætir við að fjölmargir samningar séu í skoðun. Hann nefnir þó sem dæmi að samstarfi Plain Vanilla og íþróttamiðilsins ESPN á Indlandi hafi verið hleypt af stokkunum síðastliðinn mánudag.

„Við höfum alltaf horft á þetta til lengri tíma og lagt upp úr því að byggja upp samfélag sem getur vaxið í stað þess að koma inn með auglýsingar sem byggja á óhóflegum tilraunum til að ná peningum af fólki og geta pirrað notendur. Við erum að græða á því núna þegar við ætlum að opna þennan samskiptamiðil,“ segir Þorsteinn og heldur áfram:

„En það er svolítið fyndið að þessi spurning með tekjurnar hefur verið háværust á Íslandi. Við erum hins vegar að byggja fyrirtækið upp að bandarískri fyrirmynd og ef þú horfir á Facebook eða Instagram þá eru þetta fyrirtæki sem voru rekin án tekna fyrstu árin en fjármögnuð af áhættufjármagnssjóðum eins og Plain Vanilla. Við erum fjármögnuð að mestu af bandarískum og kínverskum fjárfestingasjóðum sem hafa gefið okkur það svigrúm sem við þurfum til að geta þróað þessa vöru áfram án þess að þurfa að skila hagnaði frá mánuði til mánaðar.“

Þorsteinn B. Friðriksson.
Rekstrarféð dugir en vantar Lay's

Starfsmönnum Plain Vanilla hefur fjölgað úr tólf í áttatíu á einu ári. Fyrirtækið hefur verið áberandi í fjölmiðlum og fréttir af þeim fríðindum sem fylgja starfi hjá Plain Vanilla hafa vakið athygli sem og líflegt félagslíf starfsmanna. Þessi mynd af fyrirtækinu styrktist enn frekar hjá undirrituðum þegar hann sat í nokkrar mínútur á biðstofu Plain Vanilla og beið eftir Þorsteini. Gekk þá ónefndur starfsmaður fyrirtækisins að móttökuborðinu og spurði hver sæi um að panta Lay's-snakkið. Það væri nefnilega búið sem væri leiðinlegt því það væri í uppáhaldi hjá mörgum starfsmönnum.

„Okkur hefur gengið vel að ná í rjómann af tæknimenntuðu fólki hér á Íslandi. Þar að auki höfum við fengið frábært fólk erlendis frá. Það fólk er nú hér í skammdeginu og það kom kannski sumum þeirra á óvart hvernig það fór allt saman,“ segir Þorsteinn og hlær.

Hlutafé Plain Vanilla var aukið um 22 milljónir dollara á síðasta ári og sú hlutafjáraukning tryggði fyrirtækinu nauðsynlegt rekstrarfé. Stærstu eigendur fyrirtækisins eru fjárfestingasjóðirnir Tencent Holdings og Sequoia Capital.

„Við höfum samtals safnað rétt undir 30 milljónum dollara en okkar stærstu fjárfestar eru enn Sequioa og Tencent. Þeir hafa verið mjög sterkir aðilar og hafa hjálpað okkur mikið á þessari vegferð. Við sjáum ekki fram á að þurfa að fara í neina hlutafjáraukningu á næstunni. En þessi heimur hreyfist mjög hratt og þegar við komum út með okkar vöru í byrjun næsta árs þá mun árangur hennar hafa mikil áhrif á það hvernig við horfum á okkar áframhaldandi vöxt og fjárþörf. Við gætum þurft að halda áfram að vaxa hratt og þá gæti vel verið að við þyrftum að skoða þessi mál.“

Nokkur yfirtökutilboð

Um mánuði eftir að QuizUp var kynntur til sögunnar gerði bandaríska tölvuleikjafyrirtækið Zynga tvö yfirtökutilboð í Plain Vanilla.

Á þeim tíma greindi vefritið Kjarninn frá tilboðunum og fullyrt var að hluthafar Plain Vanilla hefðu getað fengið samtals 100 milljónir dala, jafnvirði 12 milljarða króna miðað við þáverandi gengi. Þorsteinn segist ekki geta tjáð sig um tilraunir Zynga en segir að fyrirtækinu hafi borist nokkur yfirtökutilboð.

„Það eru alltaf einhverjar svona umræður sem myndast enda er mikið um samruna og hreyfingar í þessum bransa. Og það hafa komið upp einhver dæmi sem við höfum kíkt á og skoðað en við höfum ekki skoðað þau af mikilli alvöru.“

Þegar Þorsteinn er spurður hvort hann sjái eftir því að hafa ekki tekið þessum tilboðum viðurkennir hann að þau komi oft upp í hugann þegar hann er dauðþreyttur eftir erfiðan dag í vinnunni.

„Það er bara mannlegt að maður hugsi til þess augnabliks þegar maður sagði nei við einhverju sem hefði getað gert hlutina miklu einfaldari. Nú undanfarið er ég aftur á móti orðinn það spenntur fyrir þessari vöru sem við erum að þróa og hef orðið sannfærðari um að við höfum tekið hárrétta ákvörðun um að neita þessum yfirtökutilboðum.“

Þorsteinn segir einnig í skoðun að stækka starfsstöð fyrirtækisins í Bandaríkjunum en að það velti á velgengni nýju uppfærslunnar. Höfuðstöðvarnar og kjarnastarfsemin verði þó áfram á Íslandi.

„Það eru mikil forréttindi að fá að taka þátt í svona ferðalagi með starfsmönnum fyrirtækisins. Þetta mun alltaf verða mjög stór hluti af mínu lífi og nú er að sjá hversu hátt við getum farið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×