Innlent

Þjóðaratkvæði um ESB ekki mál forystumanna í Brussel

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Þorsteinn Pálsson fyrrverandi ráðherra segir að afstaða forystumanna Evrópusambandsins til hugsanlegrar atkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB ekki skipta máli, enda sé þetta fullveldismál Íslands. Forsætisráðherra gaf í skyn í Kryddsíld að óráðlegt væri halda þjóðaratkvæðagreiðsluna á fyrri hluta kjörtímabilsins og vitnaði í samtal sitt við forystumenn ESB.

Hér má sjá stöðu viðræðna við ESB áður en þeim var hætt: Viðræðum var lokið í 11 köflum, viðræður stóðu yfir í 16, samningsafstaða Íslands lá fyrir í tveimur köflum til viðbótar en í fjórum köflum, þeirra á meðal kafla um sjávarútveg og kafla um landbúnað, hafði samningsafstaða ekki verið mótuð.

Í stjórnarsáttmála segir að ekki verði haldið lengra í viðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Sigmundur Davíð sagði í Kryddssíldinni á Stöð 2 að hann væri afslappaður gagnvart tímasetningu fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vitnaði í fund með forystumönnum ESB í Brussel

„Ég ræddi þetta mál við forystumenn Evrópusambandsins, Barroso (forseta framkvæmdastjórnar ESB innsk.blm) og Van Rompuy (forseta leiðtogaráðs ESB) þegar ég heimsótti þá sl. sumar. Ég spurði: Hvernig tækjuð þið í það ef að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi um hvort Ísland ætti að vera í þessum viðræðum og það yrði samþykkt en ríkisstjórnin sem ætti að vera í þeim viðræðum væri á móti aðild. Hvorugur þeirra hafði nú nokkurn tímann heyrt um annað eins. Báðir þurftu að hugsa sig um en komust að sömu niðurstöðu. Það bara gengi ekki upp. Það væri ekki hægt að vera í viðræðum við ríkisstjórn um aðild að Evrópusambandinu ef sú ríkisstjórnin væri ekki með það að markmiði að ganga í sambandið,“ sagði forsætisráðherra í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag.

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, gekk á forsætisráðherra í þættinum og spurði hvort hann gæti ekki gefið skýrt svar um hvenær þjóðaratkvæðagreiðslan yrði. Hann gaf ekki skýrt efnislegt svar um það.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra og nefndarmaður í samninganefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu, segir afstöðu forystumanna Evrópusambandsins ekki skipta neinu máli í þessu samhengi.

Eitthvað sem Íslendingar ákveða sjálfir

„Þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum þá er alveg ljóst að það er fullveldisréttur hvers aðildarríkis og miklu fremur fullveldisréttur umsóknarlanda hvenær þau halda þjóðaratkvæðagreiðslur og hvaða ríkisstjórnir annast viðræður við Evrópusambandið. Þannig að það er ekki hlutverk forystumanna sambandsins að ákveða þessa hluti, tímasetningar eða hvaða ríkisstjórnir eiga í viðræðum við þá,“ segir Þorsteinn.

Ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu er hreint innanríkismál Íslands, ekki satt? „Þetta er innanríkismál Íslands og það er ekki í samræmi við fullveldi Íslands, sem ríkisstjórn hvers tíma á að varðveita, að bera þessi ummæli fyrir sig ef áformin eru að svíkja kosningaloforð. Því þetta er einfaldlega það sem Íslendingar ákveða sjálfir. Bæði tímasetningu og hvaða ríkisstjórn þeir tefla fram í slíkum viðræðum,“ segir Þorsteinn.

Hvorki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, né Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmann hans í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×