Skoðun

Áskorun til vinnustaða

Hildur Friðriksdóttir skrifar
Hér með skora ég á stjórnendur fyrirtækja og stofnana að taka umræðu meðal starfsfólks síns, mánudaginn 7. apríl nk., um hvort langvarandi streita sé til staðar hjá starfsfólkinu eða á vinnustaðnum sem heild. Þessi dagsetning er ekki tilviljun heldur er 7. apríl upphafsdagur árlegrar herferðar Evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar (European Agency for Safety and Health) um heilbrigða vinnustaði. Að þessu sinni snýr herferðin að streitu og sálfélagslegum áhættuþáttum, sem stjórnendur virðast stundum eiga erfiðara með að átta sig á og vinna með frekar en umhverfis- og öryggismálum.

60% fjarvista vegna streitu

Innan Evrópusambandsins er talið að 50-60% veikindafjarvista megi rekja til streitu og annarra sálfélagslegra þátta. Sálfélagslegir áhættuþættir tengjast andlegri og líkamlegri vanlíðan sem rekja má til vinnuaðstæðna og stjórnunarhátta. Margt skiptir máli en til dæmis má nefna erfið samskipti á vinnustað, að gerðar séu of miklar eða of litlar kröfur til starfsmanns miðað við þá þekkingu sem hann hefur, stöðug tímapressa, að geta ekki tekið hlé eftir þörfum, auk fjölmargra annarra þátta.

Streita myndast þegar kröfur í vinnu eru umfram hæfni eða getu starfsmannsins til að standast kröfurnar, hvort sem hann skortir verkfæri, þekkingu, upplýsingar eða úrræði, svo dæmi séu nefnd. Oft má með litlum eða engum tilkostnaði draga úr streitu og þar með auka vellíðan á vinnustaðnum. Í verkefnavinnu í fyrirlestrum um álag, streitu og kulnun í starfi, sem ég hef haldið á tugum vinnustaða, hefur alltaf sýnt sig að hægt er að draga úr streitu til dæmis með breyttu vinnulagi, markvissara upplýsingaflæði og bættum samskiptum. Þættir sem kosta engin útgjöld heldur einungis breytta hugsun eða viðhorf.

Tengsl við kvilla og sjúkdóma

Margir átta sig ekki á hversu víðtæk tengsl eru á milli langvarandi streitu og ýmissa sjúkdóma og kvilla, eins og til dæmis verkja í hálsi og herðum, bakverks, höfuðverks, kransæðasjúkdóms, hjartsláttartruflana, þunglyndis, kvíða og síðast en ekki síst svefnerfiðleika. Fólk sem er haldið mikilli og langvarandi streitu er líklegra til að hafa leitað oftar til læknis vegna þessara einkenna og að vera meira fjarverandi frá vinnu vegna veikinda.

Ávinningur þess að skoða hvað veldur streitu á vinnustöðum er því mikill. Stjórnendur sem taka streitu starfsfólks síns alvarlega og vinna að lausnum munu fljótt sjá ánægðara starfsfólk og aukna framleiðni.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×