Skoðun

Kennarar í sigurvímu

Haukur R. Hauksson skrifar
Hvílíkur sigur eftir þriggja vikna verkfall, við náðum 2,8% hækkun þetta árið. Það tekur okkur upp undir þrjú ár að vinna upp tekjumissinn í verkfallinu svo ekki sé talin með rýrnun á verkfallssjóðnum. Samninganefnd okkar sá einnig hag í því að semja um næstu tvö árin, 2% fyrir árið 2015 og 2% fyrir árið 2016. Það sjá allir hvílíkur árangur náðist þarna og 20% launamunur við viðmiðunarhópinn í BHM hlýtur með þessu að verða úr sögunni – eða hvað?

„Heildarmyndin er geðfelld,“ sagði Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum. Hvað er svona geðfellt, Ólafur, eða átti orðið að vera ógeðfellt?

Aðalgulrótin var að bæta fimm dögum við kennsluárið. Þá „hækka“ launin ef þið samþykkið einir allra stétta lengingu vinnutímabils. Þetta var fagnaðarerindið.

Nú held ég að kominn sé tími til að framhaldsskólakennarar gefi KÍ frí og komi sér yfir til BHM.

Að lokum óska ég Gunnari Björnssyni, formanni samninganefndar ríkisins, ásamt menntamálaráðherra, til hamingju með þann árangur að ná að lítillækka kennarastéttina fullkomlega. Það gekk eftir sem Gunnar sagði í upphafi samninganna „hér verður ekkert slakað á“ og stóð við það.

Eitt að lokum. Ef við kennarar sættum okkur við þessa skömm og höfnum ekki þessum samningi, stimplum við kennarastéttina endanlega sem láglaunastétt.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×