Skoðun

Bænin sem má ekki heyrast

Guðrún Sæmundsdóttir skrifar
Er þörf fyrir breytt viðhorf til fóstureyðinga? Að mínu mati er þörf fyrir umræðu og samtal um fóstureyðingu. Ástæðan er sú að hátt í 1.000 fóstureyðingar eru framkvæmdar á Íslandi ár hvert, sem þýðir að hátt í 2.000 manns taka árlega þá ákvörðun að binda enda á meðgöngu barns síns.

Nú skyldi enginn halda að sú ákvörðun og framkvæmd láti nokkurt foreldri ósnortið. Foreldrið þarf að lifa við þessa ákvörðun og það reynist mörgum erfitt, fyrir suma er fóstureyðingin kveikjan að þunglyndi sem aldrei læknast. Tilhugsunin og söknuðurinn yfir því lífi sem hefði getað orðið verður óbærileg, og engin geðlyf geta læknað þessa hjartasorg,

Bæn til þjóðar

Eflum forvarnir, fækkum þeim foreldrum sem neyðast til að enda líf barns síns. Upplýsum betur um stuðning velferðarkerfisins sem er til staðar fyrir þá verðandi foreldra sem kjósa að ganga með barnið sitt. Hvetjum foreldra unglinga til að ræða meira við unglinginn sinn um kynlíf, engin getnaðarvörn veitir 100% vörn gegn þungun, því fylgir kynlífi alltaf áhætta á getnaði og fóstureyðing er engin lausn. Fóstureyðing er neyðarúrræði sem þarf að vera til staðar en henni fylgir áhætta, það er enginn samur eftir þetta neyðarúrræði.

Bætum fræðslu um kynlíf, ræðum um afleiðingar kynlífs og áhættuna sem fylgir kynlífi. Spyrnum gegn markaðsvæðingu óhefts kynlífs, gerum athugasemdir þegar fjölmiðlar hvetja til óábyrgrar kynlífsiðkunar. Bætum sjálfstraust ungmenna okkar, þau þurfa ekki að vera kynferðislega virk til að þóknast tíðarandanum.

Umfram allt rjúfum þagnarmúrinn.




Skoðun

Sjá meira


×