Skoðun

Náttúruvá – Formaður NASF á villigötum

Guðbergur Rúnarsson skrifar
Það er fráleitt að halda því fram að fiskeldi muni skaða lífríki og ímynd Íslands eins og formaður NASF heldur fram í Fréttablaðinu 6. maí. Skattgreiðendur munu að sjálfsögðu ekki taka á sig skuldbindingar hlutafélaga eins og fullyrt er.

Fiskeldismenn hlustuðu á sérfræðinga á málþingi NASF í vetur og varnaðarorð þeirra um að fara fram með gát og varúð, læra af reynslu annarra ríkja sem lengra eru komin í eldinu og koma í veg fyrir að eldið fari inn á villigötur.

Drög að frumvarpi ríkisstjórnarinnar eru til mikilla bóta á núgildandi lögum: einföldun í stjórnsýslunni, skilvirkara eftirlit en einnig að herða á kröfum og auka skyldur fyrirtækjanna. Drög að lagabreytingu gera ráð fyrir 30% eiginfjármögnun, tryggingum, burðarþolsrannsóknum og fleiri kröfum, t.d. um búnað sem eykur öryggi. Hjá félaginu fór fram stefnumótunarvinna sem var auglýst og kynnt ráðuneytum og stjórnsýslunni í janúar 2013.

Tekið er á skipulagsmálum í drögum að nýjum lögum en einnig í vinnu við skipulagningu Ísafjarðardjúps og Arnarfjarðar. Fyrirtækin í fiskeldi hafa með sér samstarf um hvernig fiskeldi í sjó verður best komið fyrir til að koma í veg fyrir árekstra. Ekkert öngþveiti er til staðar eins og haldið er fram.

Utan netlagna fara íslensk stjórnvöld með umráðaréttinn en ekki eigendur sjávarjarða eða veiðiréttareigendur. Fiskeldi skaðar ekki aðra matvælaframleiðslu né veiðar, enda mjög umhverfisvæn grein miðað við aðra ræktun hráefnis til matvæla, t.d. kjöts.

Frasa-vísindi

Formaðurinn velur frasa-vísindi sem henta honum þegar hann fjallar um náttúruvá og um þúsundir háskóla og vísindastofnanir. Rétt er að vísindamenn og stóru eldisfyrirtækin í heiminum leita öll að betri lausnum sem minnka áhrifin frá fiskeldi, hvort sem um er að ræða úrgang eða leiðir til að koma í veg fyrir hugsanlegar sleppingar og erfðablöndun við villta laxastofna. Laxastofninn sem nú er í eldi á Íslandi er mun betri en sá sem notaður var á 9. áratugnum. Hann er kynbættur fyrir síðbúnum kynþroska sem minnkar áhættu á erfðablöndun.

Formaðurinn skalar upp hrein ósannindi sem hann hefur áður fleygt fram í blaðagrein. Jón Örn Pálsson fjallaði um slíkan málflutning í Morgunblaðinu, 25. janúar sl., sjá lf.is. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er rekstrarleyfi í Patreksfirði fyrir 1.500 tonna eldi og fyrirhuguð er stækkun leyfis í 3.000 tonn en ekki 25.000 tonn eins og kom fram hjá formanni NASF.

Fullyrðing formannsins um úrgang stenst einfaldlega ekki. Magnið er rangt og niðurstaðan einnig.

Skólp frá fjórum mönnum jafngildir úrgangi frá einu tonni af laxi. Þá jafngildir úrgangur frá 3.000 tonna eldi 12.000 manna byggð. Í starfsleyfi fiskeldisfyrirtækja eru sett takmörk á losun úrgangs frá fiskeldi.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×