Viðskipti innlent

Raforkusamningur Landsvirkjunar og PCC til rannsóknar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Kemur stjórnvöldum í opna skjöldu.
Kemur stjórnvöldum í opna skjöldu. vísir/vilhelm
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur hafið formlega rannsókn á því hvort raforkusamningur á milli Landsvirkjunar og þýska fyrirtækisins PCC, um afhendingu á raforku til fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju PCC að Bakka í Norðurþingi, feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Inn í rannsókn ESA kemur einnig samningur á milli Landsnets og PCC um tengingu PCC við flutningskerfi raforku. Báðir samningarnir eru viðskiptasamningar sem gerðir eru beint á milli viðkomandi fyrirtækja og PCC og koma stjórnvöld ekki að gerð þeirra. Samningarnir eru þó engu að síður tilkynningaskyldir til ESA þar sem um fyrirtæki í opinberri eigu er að ræða.

Í tilkynningunni segir að ákvörðunin komi stjórnvöldum í opna skjöldu þar sem ekki höfðu borist vísbendingar um að ástæða væri til að hefja slíka rannsókn.

„Í ákvörðun ESA frá því í dag felst ekki afstaða stofnunarinnar til þess hvort um ólögmætan ríkisstyrk kunni að vera að ræða eða ekki, heldur eingöngu að stofnunin telur ástæður til að kanna það nánar með því að hefja formlega rannsókn á efni þessara tveggja samninga,“ segir orðrétt í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×