Innlent

Katrín krefst upplýsinga um leiðréttinguna

Heimir Már Pétursson skrifar
Annarri lengstu umræðu sögunnar um fjárlög lauk á Alþingi upp úr miðnætti síðastliðna nótt. Formaður Vinstri grænna gagnrýndi harðlega á þingi í dag að fjármálaráðherra ætli ekki að svara fyrirspurnum um endanlegan kostnað á bakvið leiðréttinguna svo kölluðu.

Önnur umræða um fjárlagafrumvarp næsta árs hafði staðið í tæpar fjörtíu klukkustundir þegar henni lauk upp úr miðnætti síðast liðna nótt, en þá var nokkurra klukkustunda atkvæðagreiðsla um frumvarpið og breytingartillögur við það sem hófst síðdegis í dag. Lengsta umræða um fjárlög sem verið hefur var í annarri umræðu fyrir síðustu fjárlög fyrri ríkisstjórnar í desember 2012 en hún stóð í 50 klukkustundir með atkvæðagreiðslum. Ljóst er að Alþingi fer ekki í jólafrí á föstudag eins og áætlun þess gerir ráð fyrir og er nú reiknað með að því ljúki um miðja næstu viku.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna gagnrýndi fjármálaráðherra harðlega á Alþingi í dag fyrir að svara ekki fyrirspurnum frá henni og fleirum varðandi útreikninga að baki skuldaleiðréttingunni. En hún lagði fyrirspurnina fram eftir glærukynningu forsætis- og fjármálaráðherra á framkvæmd skuldaleiðréttingarinnar  í Hörpu.

„Þar sem ég óskaði nánari upplýsinga um ýmis þau atriði sem þar var tæpt á en þó ekki útskýrt. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir að þegar 80 milljörðum er úthlutað af almannafé að þar liggi ítarlegir útreikningar að baki,“ sagði Katrín.

Hún hafi sent inn fyrirspurn í fimmtán liðum, m.a. um aldursdreifingu, búsetu og fleira sem hægt hefði verið að svara með fyrirvörum að ekki lægju fyrir útreikningar um alla. En í stað þess að svara fyrirspurn hennar og öðrum um sama efni boði fjármálaráðherra skýrslu einhvern tíma í vor þegar endanlegir útreikningar liggi fyrir.

„Þetta, virðulegur forseti, eru ekki boðleg vinnubrögð og þetta gerir okkur þingmönnum að sinna okkar eftirlitshlutverki. Ef ráðherrar komast upp með, hæstvirtir, að senda svona óboðleg svör frá sér,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×