Viðskipti innlent

Laun hækkuðu um 1,4% frá fyrri ársfjórðungi

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir/vilhelm
Regluleg laun voru að meðaltali 1,4% hærri á þriðja ársfjórðungi 2014 en á ársfjórðungnum á undan en þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Frá fyrra ári hækkuðu laun um 6,3% að meðaltali, hækkunin var 5,9% á almennum vinnumarkaði og 7,6% hjá opinberum starfsmönnum. Þar af hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 6,8% en 8,4% hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Laun á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein og starfsstétt

Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun reglulegra launa mest í samgöngum eða um 1,7%. Þá hækkuðu laun milli ársfjórðunga um 1,1% í byggingarstarfsemi, 1,0% í fjármálaþjónustu, 0,3% í verslun og 0,1% í iðnaði. Frá fyrra ári hækkuðu laun mest í byggingarstarfsemi eða um 7,9% en minnst í iðnaði eða um 4,3%.

Frá fyrri ársfjórðungi var hækkun reglulegra launa eftir starfsstéttum á bilinu 0,1% til 1,1%. Laun skrifstofufólks hækkuðu mest en laun verkafólks minnst. Frá fyrra ári hækkuðu laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks mest eða um 6,9% en laun verkafólks minnst eða um 5,2%.

Á sama tíma hækkuðu regluleg laun tækna og sérmenntaðs starfsfólks um 6,3%, skrifstofufólks um 6,2%, sérfræðinga um 6,1%, iðnaðarmanna um 5,5% og stjórnenda um 5,3%.

Kjarasamningar

Í vísitölu launa á þriðja ársfjórðungi 2014 gætir áhrifa kjarasamnings ríkis við háskóla- og framhaldsskólakennara annars vegar og sveitarfélaga við grunnskóla- og leikskólakennara hins vegar sem undirritaðir voru á fyrri hluta árs 2014.

Þá gætir áhrifa kjarasamninga fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga við nokkur stéttarfélög opinberra starfsmanna sem undirritaðir voru á öðrum ársfjórðungi 2014.

mynd/hagstofan





Fleiri fréttir

Sjá meira


×