Viðskipti innlent

Gera ráð fyrir 80 milljóna rekstrarafgangi

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir/gva
Frumvarp að fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2015 svo og þriggja ára áætlun fyrir árin 2016-2018 var samþykkt í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar í gær en þetta kemur fram í tilkynningu frá Akranesbæ.

Fram kemur í tilkynningunni að áframhaldandi aðhald í rekstri, niðurgreiðsla skulda og aukin framlegð, bætt þjónusta við fatlaða íbúa og auknar fjárfestingar séu meðal helstu áhersluatriða bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar á næsta ári.

Gert er ráð fyrir 80 milljóna króna rekstrarafgangi á árinu 2015 og verður það þriðja árið í röð sem gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu í rekstri sveitarfélagsins. Á árinu 2015 er ráðgert að greiða niður skuldir um 348 m.kr., þar af eru lífeyrisskuldbindingar um 80 m.kr.

Skuldahlutfallið er áætlað 113 % á árinu 2015 en stefnt er að því að það fari lækkandi og verði 105 % á árinu 2018. Almennar gjaldskrár munu taka verðlagsbreytingum, 3,4 % á árinu 2015.

Fjárfestingar aukast á milli ára en gert er ráð fyrir um 434 milljónum króna í fjárfestingar, framkvæmdir og viðhald eigna. Þar vega mest útgjöld vegna fyrirhugaðrar þjónustumiðstöðvar fyrir aldraða að Dalbraut 6 og breytingar á húsnæði við Vesturgötu 102 til að mæta búsetuþörfum fatlaðra einstaklinga.

Ennfremur er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu í gamla miðbænum, meðal annars með stofnun húsverndarsjóðs þar sem íbúar geta sótt um styrki til að endurgera eldri hús. Þá verður farið í endurbætur á götum og leikvöllum í bænum.

Rekstrarútgjöld í aðalsjóði hækka á milli ára um 7,67 % en þar af hækka útgjöld til skólamála um 236 m.kr. vegna nýgerðra kjarasamninga. Útgjöld til skólanna nema um 2.350 m.kr. Til velferðarmála er varið um 764 m.kr., þar af rúmlega 400 m.kr. til málaflokks fatlaðra.

Gert er ráð fyrir fjármagni vegna stofnunar þróunarfélags á Grundartangasvæðinu og vegna vinnu starfshópa sem vinna að mótun skipulags vegna Sementsreitsins svokallaða og vegna hafnarsvæðisins og Breiðarinnar en vænst er uppbyggingar í tengslum við öll þessi svæði á næstu árum.

Veltufjárhlutfallið er áætlað 1,03 á árinu 2015 og er stefnt að því að það fari hækkandi á næstu þremur árum og verði 1,82 á árinu 2018. Sama gildir um eiginfjárhlutfallið sem er 53 prósent á árinu 2015 og áætlað 56 prósent á árinu 2018. Þá er gert ráð fyrir því að framlegðarhlutfallið aukast úr 5,40 prósentum á árinu 2015 í 7 prósent á árinu 2018.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×