Viðskipti innlent

Arion banki vill kaupa lánasafn Íbúðalánasjóðs

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Arion banki hefur áhuga á að kaupa lánasafn Íbúðalánasjóðs og sameinaða það bankanum. Sala lánasafnsins er eitt af því sem stjórnvöld hafa haft til skoðunar en skattgreiðendur hafa þurft að greiða 50 milljarða króna með sjóðnum á síðustu árum.

Í tölvupósti sem Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs sendi viðskiptavini viðraði hann þann möguleika að lánasafn sjóðsins yrði selt sem möguleg lausn á vanda sjóðsins.

Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arion banka segir að bankinn hafi áhuga á að kaupa lánasafn Íbúðalánasjóðs.

„Vandi Íbúðalánasjóðs er mikill og ef að Arion banki gæti komið að því að leysa úr þeim vanda til dæmis með því að kaupa lánasafn Íbúðalánasjóðs þá væri það jákvætt og yrði skoðað.“

Hefurðu komið þessu á framfæri við félagsmála- og húsnæðismálaráðherra?

„Við höfum ekki gert það neitt sérstaklega en ef tækifæri skapast þá munum við skoða það mjög alvarlega,“ segir Höskuldur.

„Í fyrsta lagi hefur engin ákvörðun verið tekin um sölu lánasafnsins. Í annan stað eru skuldir sjóðsins óuppgreiðanlegar. Þannig ef það á að selja eignir sjóðsins þá verður að vera möguleiki á að greiða upp skuldir sjóðsins. Fyrst það er ekki hægt, eins og skilmálum er háttað í fjármögnun sjóðsins, þá verður uppgreiðslutjón og það verður að bæta það með einhverjum hætti,“ segir Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs.

Þyrfti þá ekki verðið að endurspegla ætlað vaxtatap sjóðsins?

„Það verður að gera það ef ekki á að hljótast af tjón.“

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra sagði í fréttum okkar á fimmtudag að ekki kæmi til greina að selja lánasafn Íbúðalánasjóðs á meðan ríkisábyrgð væri á skuldum sjóðsins. 

Það eru þó skiptar skoðanir um hvort ríkisábyrgðin áskuldabréfum Íbúðalánasjóðs sé yfirleitt til staðar. Daníel Isebarn Ágústsson hæstaréttarlögmaður telur t.d. að engin ríkisábyrgð sé á þessum skuldum því heimildin vegna ríkisábyrgðarinnar styðjist ekki við sett lög. Fjárlagaheimild fullnægi ekki áskilnaði stjórnarskrárinnar um sett lög.

Sé þetta rétt gætu stjórnvöld látið á þetta reyna. Til dæmis ef sjóðurinn myndi hætta að standa við skuldbindingar sínar, þ.e. hætta að greiða af skuldbréfum sínum. Daníel telur að ríkissjóður yrði sýknaður í slíku máli væri fjárkröfu beint að honum vegna skuldbindinga sjóðsins þar sem ætluð ríkisábyrgð styðjist ekki við sett lög.


Tengdar fréttir

Þúsundir viðskiptavina fastir með lán sín

Þúsundir viðskiptavina Íbúðalánasjóðs geta ekki greitt upp lán sín eða endurfjármagnað þau vegna uppgreiðslugjalds sem sjóðurinn gerir kröfu um sem hleypur á milljónum króna. Rætt hefur verið um að bankarnir taki yfir lánasafn sjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×