Viðskipti innlent

Segir viðbrögð bankaráðsins ófullnægjandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það er ófullnægjandi eftirlit af hálfu bankaráðs Seðlabanka Íslands að vísa ekki máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til lögreglu. Þetta segir Haukur Örn Birgisson hæstaréttarlögmaður.

Eins og fram hefur komið greiddi Seðlabankinn málskostnað fyrir Má vegna máls sem hann rak gegn bankanum sjálfum. Í ljós kom að það var Lára V. Júlíusdóttir fyrrverandi formaður bankaráðsins, sem ákvað að bankinn skyldi greiða Má kostnaðinn. Núverandi bankaráð komst að þeirri niðurstöðu, eftir að Ríkisendurskoðun birti skýrslu um málið, að málskostnaðurinn væri ekki hluti af rekstrarkostnaði bankans.

Haukur Örn telur að Seðlabankinn hefði átt að sinna eftirlitshlutverki sínu betur. „Eðlileg niðurstaða hefði verið sú að fela lögreglu að rannsaka málið. Athuga hvort heimild hafi verið fyrir þessum fjárútlátum eða vort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað,‟ segir Haukur. Þá taki saksóknari afstöðu til þess hvort eitthvað saknæmt hafi gerst og hvort málið myndi duga til sakfellinga. Bankaráðið hefði þá sinnt eftirlitshlutverki sínu.

„Ég myndi telja að ef svona kæmi upp í öðru ríkisfyrirtækjum þá hefði það meiri afleiðingar en þessar, að viðkomandi þyrfti bara að endurgreiða féð,‟ sagði Haukur Örn í útvarpsþætti á Bylgjunni í morgun. „Mér finnst ekki trúverðugt að málin séu afgreidd með þessum hætti, að þetta ríka eftirlitshlutverk nái ekki lengra en svo að viðkomandi aðili þurfi bara að borga peninginn til baka,‟ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×