Viðskipti innlent

Slitastjórnir föllnu bankanna boðaðar á fund

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson í slitastjórn Glitnis.
Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson í slitastjórn Glitnis.
Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar hafa skilað tillögum að fullbúnum hugmyndum um afnám fjármagnshafta. Slitastjórnir Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa verið boðaðar á fund ráðgjafarnefndar um losun fjármagnshafta næstkomandi þriðjudag.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld að framkvæmdanefnd um afnám fjármagnshafta myndu skila fullmótuðum tillögum í þessari viku. Nánari upplýsingar um framkvæmdanefndina má sjá hér. 

Samkvæmt heimildum upplýsingum fréttastofu hefur þessum tillögum nú verið skilað til stýrinefndar um afnám hafta sem Bjarni Bene­dikts­son leiðir. Aðrir full­trú­ar í stýr­i­n­efnd­inni eru seðlabanka­stjóri, ráðuneyt­is­stjór­ar for­sæt­is- og fjár­málaráðuneyt­is og Bene­dikt Árna­son, efna­hags­ráðgjafi for­sæt­is­ráðherra.

Á meðal þess sem framkvæmdanefndin leggur til er tillaga um flatan útgönguskatt á allt fjármagn í eigu slitabúanna, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Nefndur hefur verið 35 prósenta flatur skattur á fjármagn í eigu slitabúanna en sú tala hefur þó ekki fengist staðfest. Þá verða kynntar hugmyndir um framtíðareignarhald á Íslandsbanka og Arion banka, sem í dag eru báðir í eigu erlendra kröfuhafa, þ.e. slitabúa Glitnis annars vegar og Kaupþings hins vegar.

Þörf að rökstyðja undanþágubeiðnir

Slitastjórnir allra stóru föllnu bankanna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa verið boðaðar á fund á Grand hóteli á þriðjudag með framkvæmdanefnd um afnám fjármagnshafta. Ekki stendur til að ræða þessar tillögur þar og er talið ósennilegt að tillögurnar verði kynntar formlega á þessu ári.

Í fundarboði er farið fram á að slitastjórnirnar geri grein fyrir undanþágubeiðnum slitabúanna frá fjármagnshöftum og rökstyðji hvernig undanþágurnar geti samrýmst áformum um afnám hafta bæði út frá efnahagslegu og samfélagslegu sjónarmiði og með tilliti til jafnræðissjónarmiða. Í tilviki Kaupþings og Glitnis var óskað eftir undanþágum í tengslum við nauðasamninga þessara banka. 

Fulltrúar slitastjórna sem fréttastofa ræddi við sögðust ekki vita hvaða sjónarmiðum stjórnvöld byggðu á en sögðust fagna því að raunverulegar viðræður stjórnvalda við slitastjórnir væru að hefjast.

Fundurinn með slitabúum föllnu bankanna á þriðjudag og undanþágan sem slitabú Landsbankans fékk til að greiða forgangskröfuhöfum vegna Icesave þykir vera til marks um að hjólin séu raunverulega farin að snúast þegar kemur að afnámi fjármagnshafta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×