Skoðun

Ákall til þjóðar, stöndum vörð um réttindi barna og unglinga

Ragnheiður Rafnsdóttir skrifar
Það þykja sjálfsögð réttindi hvers manns að lifa lífinu laus við ofbeldi. Allir eru fæddir jafnir og eiga jafnan rétt til lífs, óháð litarhætti, kynferði, trúarskoðunum, stjórnmálaskoðunum eða öðrum skoðunum.  Árið 1948 var lagður grunnur að alþjóðlegum mannréttindum með Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Börn eiga að njóta sömu réttinda og fullorðið fólk. Með tilkomu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna var fullgiltur á Íslandi 1992 og lögfestur í febrúar 2013, börnum var tryggður réttur óháð réttindum fullorðinna. Sáttmálinn miðar að því að tryggja öllum börnum 18 ára og yngri vernd og umönnun ásamt því að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Miðað við þann fjölda barna sem býr í stríðshrjáðum löndum, býr við fátækt, ofbeldi og vanrækslu þá hljóta þau ekki þessa vernd og öryggi. Barn deyr á fimm mínútna fresti í heiminum vegna ofbeldis, milljónir barna búa við ótta og angist og áfallastreita hrjáir  þriðjung barna sem beitt hafa verið ofbeldi.  Réttindi þessara barna eru ekki virt og ekki er farið að lögum um vernd og umönnun. Þótt mikil og góð vinna hafi átt sér stað undanfarna áratugi sitjum við enn uppi með óviðunandi ástand er varðar réttindi barna og unglinga. 

Uppalendum ber samkvæmt lögum að koma afkvæmum sínum á legg, ber að elska þau og virða og tryggja öryggi þeirra. Barn sem fer í gegnum bernskuna með þessa hluti að leiðarljósi kemur til með að treysta á sjálft sig og virða. Barn sem ekki fær ástúð eða öryggi missir trú á sjálfu sér og á erfitt með að treysta öðrum.  Til lengri tíma litið fara umtalsverðir fjármunir í  t.d. sérfræðiaðstoð, lyfjakostnað ásamt kostnaði vegna vinnutaps hjá einstaklingum. Einstaklingar sem beittir hafa verið ofbeldi í æsku eru líklegri til áhættuhegðunar á borð við áfengis og vímuefnaneyslu  sem getur síðan leitt til alvarlegra sjúkdóma.

Raddir barna verða að heyrast hærra, börn og unglingar eru skynsöm og réttsýn og eiga samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna rétt á því að tala sínu máli og hafa tækifæri til að tjá skoðanir sínar.

Ofbeldi og ill meðferð á börnum og unglingum er ekki einkamál fjölskyldu þolenda, hver og einn þarf  að líta í eigin barm og ákveða hvað þeir geti gert til hjálpar. Það er ekki ásættanlegt að sita hljóður og hunsa fréttir af börnum í neyð.  Næsta barn gæti verið þitt barn eða þér tengt. Þú getur haft áhrif. Tökum afstöðu og stöndum með börnunum okkar, þau eiga rétt á áhyggjulausri barnæsku, laus við ofbeldi.

Þetta er ákall barna til þjóðarinnar, tökum höndum saman og stöndum vörð um réttindi barna.

Ragnheiður Rafnsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur, meistaranemi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri.




Skoðun

Sjá meira


×