Viðskipti innlent

Siggi San selur suZushi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Siggi San í kunnuglegri stellingu á suZushi í Kringlunni.
Siggi San í kunnuglegri stellingu á suZushi í Kringlunni. Mynd/suZushi
Einar Sturla Moinichen, eigandi Sushibarsins á laugavegi og Suðurlandsbraut auk Sake-barsins hefur fest kaup á zuSushi á Stjörnutorgi í Kringlunni af Sigurði Karli Guðgeirssyni, betur þekktum sem Sigga San. Einar Sturla er einnig eigandi Lava og Hressó. Veitingageirinn greindi fyrst frá.

„Hann vill bara losna við kallinn,“ segir Siggi hlæjandi í samtali við Vísi. Þeir Einar Sturla hafa verið í samkeppni um sushi-bransanum í höfuðborginni en hún heyrir nú sögunni til. Í bili að minnsta kosti. Siggi segist hafa samþykkt að selja Einari Sturlu staðinn vegna þess að þeir byggi á sömu hugmyndafræði. Sushi sé handgert á þeirra stöðum á meðan notast sé við róbóta á öðrum hérlendis.

Siggi hefur verið eigandi suZushi ásamt eiginkonu sinni, Ástu Sveinsdóttur, frá opnun staðarins í febrúar 2010. Nú ætlar hann hins vegar að einbeita sér alfarið að hamborgurum en Siggi er eigandi Roadhouse við Snorrabraut.

Siggi San og félagar í Kringlunni.Mynd/suZushi
„Ég ætla að fara 100 prósent í það. Hræða alla hamborgaraframleiðendur landsins,“ segir Siggi hlæjandi. Hann var einmitt á leiðinni á Roadhouse þegar blaðamaður náði af honum tali.

„Ég ætla að fá mér grísasamloku og kók,“ segir Siggi og hlær. „Þetta er tíminn til að fitna. Það má á þessum tíma,“ segir Siggi. Hann bætir við að ein ástæða þess sem þau hjónin hafi selt staðinn sé vegna þess að þau séu að minnka við sig. Þau eiga nefnilega von á öðru barni sínu í mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×