Viðskipti innlent

Enn lækkar bensínverð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Frá því að verðið var sem hæst um miðjan júní hefur bensínverð því lækkað um fimmtán prósent.
Frá því að verðið var sem hæst um miðjan júní hefur bensínverð því lækkað um fimmtán prósent. Vísir/GVA
Vegna áframhaldandi lækkunar á heimsmörkuðum hafa Skeljungur og Orkan ákveðið að lækka enn frekar verð á bensíni og dísil. Nú er lækkunin á bensíni þrjár krónur og dísil tvær krónur.

Verðið hjá Orkunni er því 217,50 kr/l á bensíni og 218,50 kr/l á dísil.

Frá því að verðið var sem hæst um miðjan júní hefur bensínverð því lækkað um fimmtán prósent.

Í tilkynningu frá Skeljungi kemur fram að á sama tíma hafi dollarinn hækkað um tæp tíu prósent gagnvart íslensku krónunni sem hafi staðið í vegi fyrir enn frekari lækkunum.

Hugi Hreiðarsson.Vísir/Anton
Verðlækkanir á par við önnur Evrópulönd

Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu, segir í samtali við Vísi að verðið hafi hæst verið 251,50 krónur þann 18. júní síðastliðinn. Síðan hafi verðið því lækkað um 34 krónur.

„Ef við miðum við meðalfjölskyldu sem eyðir 95 lítrum á mánuði erum við að tala um 39 þúsund króna árssparnað,“ segir Hugi.

Aðspurður hvað sé í kortunum varðandi bensínverð segir Hugi engin teikn á lofti varðandi hækkanir.

„Maður hefur lært það á þessu brasi að það sem er rétt fyrir hádegi getur verið kolrangt eftir hádegi.“

Þá bendir Hugi á að hefði gengi dollas ekki styrkst gagnvart krónu undanfarið hálft ár væri lækkun á bensínverði líklega níu krónum meiri.

„Verðlækkanirnar eru áþekkar því sem er að gerast í Evrópulöndunum,“ segir Hugi. Erfiðara sé að bera saman bensínverð hér á landi og í Bandaríkjunum.

„Evrópulöndin skattleggja mun hærra en vestanhafs. Þeir ná inn sköttunum annars staðar.“

Gróf athugun Huga, að beiðni fréttamanns, leiddi í ljós að verð á bensíni hefur ekki verið lægra hér á landi síðan í febrúar 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×