Viðskipti innlent

Landsbankinn veitir tíu milljónir króna í samfélagsstyrki

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér má sjá þá aðila sem fengu styrki.
Hér má sjá þá aðila sem fengu styrki. mynd/aðsend
26 verkefni fengu samfélagsstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans að þessu sinni en þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Tvö verkefni fengu úthlutað einni milljón króna, níu verkefni fengu 500 þúsund krónur hvert og loks fengu fjórtán verkefni 250 þúsund króna styrk. Rúmlega 300 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni.

Samfélagsstyrkjum er einkum ætlað að styðja við þá sem sinna mannúðar- og líknarmálum, menntamálum, rannsóknum og vísindum, verkefnum á sviðum menningar og lista, forvarnar- og æskulýðsstarfi og sértækri útgáfustarfsemi.

Samfélagssjóður Landsbankans veitir ferns konar styrki á hverju ári: Námsstyrki, nýsköpunarstyrki, samfélagsstyrki, og umhverfisstyrki og afreksstyrkir eru veittir annað hvert ár. Samfélagsstyrkir eru að jafnaði veittir tvisvar á ári og alls voru veittar 20 milljónir króna í samfélagsstyrki á þessu ári.

Dómnefnd samfélagsstyrkja var að þessu sinni skipuð þeim Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur dósent við Háskóla Íslands, Ármanni Jakobssyni prófessor við Háskóla Íslands, Kristjáni Kristjánssyni upplýsingafulltrúa hjá Landsbankanum og Guðrúnu Agnarsdóttur lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar.

Fram kemur í tilkynningunni frá Landsbankanum að samfélagsstyrkir séu mikilvægur þáttur í stuðningi bankans við samfélagið.

„Með þeim leggur Landsbankinn bæði einstaklingum, hópum og félagssamtökum lið við verkefni sem jafnan er sinnt af einlægni og ómetanlegum áhuga sem vert er að verðlauna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×